Evrópsk hlutabréf hækkuðu í fyrstu viðskiptum í morgun eftir fréttir helgarinnar um að úkraínski herinn hefði náð að sækja fram og frelsa fjöldi byggða sem Rússaher hafði hertekið.
Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur hækkað um 1,3% frá lokun markaða á föstudaginn og hefur ekki verið hærri frá því í lok síðasta mánaðar. Þá hefur þýska DAX vísitalan hækkað um 1,8%, franska CAC 40 hækkað um 1,5% og breska FTSE 100 risið um 1,4%.
„Staðan í Úkraínustríðinu vekur væntingar hjá markaðnum um mögulega fari þetta að ljúka og létta undir orkukrísuna,“ hefur Reuters eftir sjóðstjóra hjá fjármálafyrirtækinu PineBridge Investments.
Íslenski markaðurinn hefur ekki fylgt eftir hækkunum á evrópskum hlutabréfamörkuðum en úrvalsvísitalan er á svipuðum stað og við lokun Kauphallarinnar á föstudaginn. Fimm félög aðalmarkaðarins hafa hækkað í viðskiptum dagsins og ellefu félög lækkað.
Þá hélt evran áfram að styrkjast frá því að Seðlabanki Evrópu tilkynnti um 0,75 prósentu vaxtahækkun í síðustu viku. Evran hefur ekki verið sterkari gagnvart Bandaríkjadollar í nærri fjórar vikur.