Evrópski seðlabankinn, sem sér um peningamálastefnu evrusvæðisins, mun að öllum líkindum lækka vexti í næstu viku, ef marka má ummæli Philip Lane aðalhagfræðings bankans í Financial Times í morgun.
Vextir evrópska bankans hafa aldrei verið hærri en ef fram fer sem horfir verður bankinn á undan Englandsbanka og bandaríska seðlabankanum til að hefja vaxtalækkunarferli sitt.
Lane sagði í viðtali við FT að ef einhverjar stórar uppákomur verða á evrusvæðinu fram að fundi peningastefnunefndar 6. júní sé ekkert því til fyrirstöðu að byrja vaxtalækkunarferlið.
Fjárfestar eru að veðja á 25 punkta lækkun en vextir á evrusvæðinu eru 4% og hafa aldrei verið hærri. Verðbólga á evrusvæðinu mældist 2,4% í aprílmánuði og nálgast óðfluga 2% markmið seðlabankans.
Vextir hafa nú þegar verið lækkaðir í Sviss, Svíþjóð, Tékklandi og Ungverjalandi á árinu vegna hjaðnandi verðbólgu. En vextir hafa verið óbreyttir á stærstu efnahagssvæðum heims líkt og fyrr segir.