Hlutabréfamarkaðir í Evrópu opnuðu rauðir í morgun. Hlutabréf banka leiddu lækkanir, sem má einkum rekja til falls Silicon Valley Bank (SVB).

Hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 Banks, sem inniheldur hlutabréf evrópskra banka, hefur lækkað um meira en 4% í morgun. Einnig lækkuðu hlutabréf banka í Asíu í morgun.

Hins vegar hafa hlutabréf bandarískra banka hækkað í viðskiptum fyrir opnun markaða, eftir að stjórnvöld í Bandaríkjunum tilkynntu um að allar innstæður í SVB verði tryggðar að fullu af tryggingasjóði innstæðueiganda, að því er segir í umfjöllun Reuters.

Hlutabréfavísitalan Europe Stoxx 600 hefur lækkað um nærri 2% í morgun, enska FTSE 100 um 2,4%. Þá hefur íslenska Úrvalsvísitalan fallið um tæplega 1,9% í fyrstu viðskiptum.