Evrópskir hlutabréfamarkaðir hafa byrjað árið af krafti. STOXX Europe 600 vísitalan hefur hækkað um 3,4% frá áramótum.
CAC40 vísitala franska hlutabréfamarkaðarins hefur hækkað um 4% frá áramótum og AEX vísitala hollenska hlutabréfamarkaðarins hefur hækkað um sama hlutfall. Þýska DAX vísitalan og spænska IBEX 35 vísitalan hafa þá hækkað um 3,5%. FSTE 100 vísitalan hefur einnig hækkað um 1,75% frá áramótum.
Efnahagshorfur í Evrópu hafa batnað að undanförnu og hægst hefur á orkuverðshækkunum í álfunni. Þannig virðist verðbólga á evrusvæðinu vera að hægja á sér ef litið er til nýjustu verðbólgutalna. Verðbólgutölur fyrir evrusvæðið í heild sinni koma út á föstudaginn næstkomandi.
Verðbólgan í Frakklandi dróst verulega saman á milli mánaða og mældist 6,7% í desember, en hún mældist 7,1% í nóvember. Verðbólgan var verulega undir spám hagfræðinga, sem gerðu ráð fyrir um 7,2% verðbólgu í mánuðinum.
Verðbólgan í Þýskalandi mældist einnig undir spám í desember og var 8,6%, en spár gerðu ráð fyrir 9% verðbólgu.
Þá var verðbólga á Spáni 5,8% í mánuðinum, samanborið við 6,8% í nóvember.