Verðbréfamiðlanir stærstu fjárfestingarbanka Evrópu skiluðu sínum hæstu tekjum á einum ársfjórðungi í meira en áratug.
Aukin óvissa á fjármálamörkuðum eftir endurkomu Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta leiddi af sér miklar sveiflur í verði hlutabréfa, skuldabréfa og gjaldmiðla en sveiflurnar gáfu miðlurum tækifæri til að stórauka viðskipti og tekjur sínar, samkvæmt Financial Times.
Fimm stærstu fjárfestingabankar Evrópu, UBS, BNP Paribas, Société Générale, Barclays og Deutsche Bank, skiluðu samanlagt 13 milljörðum evra í tekjur af hlutabréfa- og skuldabréfaviðskiptum á fyrsta ársfjórðungi.
Þetta er hæsta sameiginlega niðurstaða þeirra í að minnsta kosti áratug og slær út fyrra met frá upphafi árs 2022, sem kom í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu.
Svissneski bankinn UBS skilaði sínum besta ársfjórðungi til þessa, með 2,3 milljarða evra viðskiptatekjum, sem er nærri þriðjungsaukning frá sama tíma í fyrra.
BNP Paribas, stærsti banki Frakklands, fór einnig fram úr öllum fyrri fjórðungum og námu viðskiptatekjur bankans 2,8 milljörðum evra.
Sergio Ermotti, forstjóri UBS, sagði í vikunni að viðskipti hefðu tekið verulegan kipp í byrjun annars ársfjórðungs, einkum eftir að Trump tilkynnti um svokallaða „gagnkvæma tolla“ þann 2. apríl, sem olli mikilli lækkun á mörkuðum.
Þó svo að Deutsche Bank hafi hætt að þjónusta hlutabréfaviðskipti jókst tekjuflæði bankans af skuldabréfa-, gjaldeyris- og hrávöruviðskiptum (FICC) um 17% frá sama fjórðungi í fyrra.
Barclays jók sínar FICC-tekjur um 21% og voru því bæði bankarnir efstir í hlutfallslegum vexti í þessum geira.
Samkvæmt FT nýtti Société Générale sér markaðsaðstæður vel, sérstaklega í hlutabréfaviðskiptum.
Þar jukust tekjur bankans um meira en fimmtun, og námu 1,06 milljörðum evra, þó að tekjur af skuldabréfum hafi dregist örlítið saman.
„Óstöðugleikinn á mörkuðum er almennt jákvæður fyrir alþjóðleg viðskiptasvið banka eins og okkar,“ sagði Slawomir Krupa, forstjóri SocGen. „Frá stærra efnahagssjónarmiði er þetta ástand að mestu viðráðanlegt.“
Frá þv aðí Covid-19 faraldurinn hófst árið 2020 hafa sveiflur á fjármálamörkuðum í sífellu skapað ný tækifæri fyrir verðbréfaviðskipti.
Fyrst kom faraldurinn, síðan innrás Rússa og hraðar vaxtahækkanir seðlabanka og nú óvissa vegna nýrrar viðskiptastefnu Bandaríkjanna. Allt þetta hefur orðið evrópskum bönkum að góðu.
Mettekjuöflun var á fyrsta ársfjórðungi 2022 hjá evrópskum fjárfestingarbönkum, sem skiluðu um 12,8 milljörðum evra í sameiginlegar viðskiptatekjur. Það met var nú slegið.
Þar gegndi Credit Suisse stóru hlutverki en bankinn varð gjaldþrota árið 2023.
Andrew Coombes, greiningarmaður hjá Citigroup, telur að afkoman gefi tilefni til bjartsýni fyrir annan ársfjórðung:
„Þetta bendir til þess að markaðstekjur verði áfram sterkar á næsta fjórðungi, í framhaldi af góðri frammistöðu í hlutabréfum og FICC nú í upphafi árs.“