Verðbréfa­miðlanir stærstu fjár­festingar­banka Evrópu skiluðu sínum hæstu tekjum á einum árs­fjórðungi í meira en ára­tug.

Aukin óvissa á fjár­málamörkuðum eftir endur­komu Donalds Trump í em­bætti Bandaríkja­for­seta leiddi af sér miklar sveiflur í verði hluta­bréfa, skulda­bréfa og gjald­miðla en sveiflurnar gáfu miðlurum tækifæri til að stórauka við­skipti og tekjur sínar, sam­kvæmt Financial Times.

Fimm stærstu fjár­festinga­bankar Evrópu, UBS, BNP Pari­bas, Société Généra­le, Barcla­ys og Deutsche Bank, skiluðu saman­lagt 13 milljörðum evra í tekjur af hluta­bréfa- og skulda­bréfa­við­skiptum á fyrsta árs­fjórðungi.

Þetta er hæsta sam­eigin­lega niður­staða þeirra í að minnsta kosti ára­tug og slær út fyrra met frá upp­hafi árs 2022, sem kom í kjölfar inn­rásar Rúss­lands í Úkraínu.

Sviss­neski bankinn UBS skilaði sínum besta árs­fjórðungi til þessa, með 2,3 milljarða evra við­skipta­tekjum, sem er nærri þriðjungs­aukning frá sama tíma í fyrra.

BNP Pari­bas, stærsti banki Frakk­lands, fór einnig fram úr öllum fyrri fjórðungum og námu við­skipta­tekjur bankans 2,8 milljörðum evra.

Sergio Er­motti, for­stjóri UBS, sagði í vikunni að við­skipti hefðu tekið veru­legan kipp í byrjun annars árs­fjórðungs, einkum eftir að Trump til­kynnti um svo­kallaða „gagn­kvæma tolla“ þann 2. apríl, sem olli mikilli lækkun á mörkuðum.

Þó svo að Deutsche Bank hafi hætt að þjónusta hluta­bréfa­við­skipti jókst tekju­flæði bankans af skulda­bréfa-, gjald­eyris- og hrávöru­við­skiptum (FICC) um 17% frá sama fjórðungi í fyrra.

Barcla­ys jók sínar FICC-tekjur um 21% og voru því bæði bankarnir efstir í hlut­falls­legum vexti í þessum geira.

Sam­kvæmt FT nýtti Société Généra­le sér markaðsaðstæður vel, sér­stak­lega í hluta­bréfa­við­skiptum.

Þar jukust tekjur bankans um meira en fimmtun, og námu 1,06 milljörðum evra, þó að tekjur af skulda­bréfum hafi dregist ör­lítið saman.

„Óstöðug­leikinn á mörkuðum er al­mennt jákvæður fyrir alþjóð­leg við­skipta­svið banka eins og okkar,“ sagði Slawomir Kru­pa, for­stjóri Soc­Gen. „Frá stærra efna­hags­sjónar­miði er þetta ástand að mestu viðráðan­legt.“

Frá þv aðí Co­vid-19 far­aldurinn hófst árið 2020 hafa sveiflur á fjár­málamörkuðum í sí­fellu skapað ný tækifæri fyrir verðbréfa­við­skipti.

Fyrst kom far­aldurinn, síðan inn­rás Rússa og hraðar vaxta­hækkanir seðla­banka og nú óvissa vegna nýrrar við­skipta­stefnu Bandaríkjanna. Allt þetta hefur orðið evrópskum bönkum að góðu.

Met­tekjuöflun var á fyrsta árs­fjórðungi 2022 hjá evrópskum ­fjár­festingar­bönkum, sem skiluðu um 12,8 milljörðum evra í sam­eigin­legar við­skipta­tekjur. Það met var nú slegið.

Þar gegndi Credit Suis­se stóru hlut­verki en bankinn varð gjaldþrota árið 2023.

Andrew Coom­bes, greiningar­maður hjá Citigroup, telur að af­koman gefi til­efni til bjartsýni fyrir annan árs­fjórðung:

„Þetta bendir til þess að markaðs­tekjur verði áfram sterkar á næsta fjórðungi, í fram­haldi af góðri frammistöðu í hluta­bréfum og FICC nú í upp­hafi árs.“