Knattspyrnufélögin tólf sem léku í Bestu deild karla síðasta sumar voru rekin með samtals 518 milljóna króna hagnaði á síðasta ári.
Víkingar högnuðust langmest allra liða í deildinni í fyrra, eða um 416 milljónir króna, sem skilar sér í því að eigið fé knattspyrnudeildar Víkings nam hálfum milljarði króna um áramótin.
Að sama skapi voru Víkingar með langmestu tekjur allra liða í fyrra og slógu met í þeim efnum með tæplega 1,3 milljarða króna veltu.
Fyrra met slógu Blikar árið áður þegar félagið velti 1,1 milljarði króna.
Það sem þessi félög eiga sameiginlegt er að þau komust bæði í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar – Breiðablik árið 2023 og Víkingar árið 2024. Víkingar gerðu gott betur og komust í umspil um að komast í 16-liða úrslit, með því að vinna tvo leiki og gera tvö jafntefli í riðlakeppninni, sem skilaði gríðarmiklum tekjum fyrir félagið.
Þannig tæplega 14-földuðust tekjur Víkinga af Evrópukeppni milli ára, námu 837 milljónum króna árið 2024. Á móti jókst ferðakostnaður um 113 milljónir, auk þess sem kostnaður vegna viðburðarhalds nærri tvöfaldaðist og nam 30 milljónum. Þá greiddu Víkingar tæpar 13 milljónir króna í vallarleigu vegna þátttöku í Sambandsdeildinni.
Árangur Víkinga á síðasta ári virðist hafa skapað mikla stemningu meðal stuðningsmanna félagsins, en sjá má á ársreikningi að tekjur vegna herra-, konukvölda og annarra skemmtana meira en tvöfölduðust milli ára og námu 20 milljónum króna.
Sveiflur í félagaskiptatekjum Víkinga
Víkingar seldu fáa leikmenn á síðasta ári. Félagaskiptatekjur námu 5,5 milljónum í fyrra samanborið við nærri 100 milljóna tekjur árið áður. Þess má vænta að tekjur vegna félagaskipta munu rísa á ný á rekstrarárinu 2025.
Víkingar hafa m.a. selt Ara Sigurpálsson til Elfsborg í Svíþjóð, Gísla Gottskálk Þórðarson til Lech Poznan í Póllandi og Danijel Dejan Djuric til NK Istra 1961 í Króatíu. Þá hefur bakvörðurinn knái Karl Friðleifur Gunnarsson vakið athygli liða á Norðurlöndunum og verður fróðlegt að sjá hvort hann verði seldur á árinu.
Þegar litið er til hagnaðar er ÍA hvað næst hæla Víkinga með samanlagt 144 milljóna króna hagnað á árunum 2023 og 2024. ÍA, sem spilaði í Lengjudeildinni árið 2023 en í þeirri Bestu ári síðar, hefur verið duglegt við að selja leikmenn.
Tekjur ÍA vegna félagaskipta námu 81 milljón króna á síðasta ári og 97 milljónum árið áður. Samanlagðar tekjur ÍA vegna leikmannasölu nema 324 milljónum króna á síðastliðnum fimm árum, frá 2020-2024.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.