Meirihluti Evrópubúa telur loftslagsbreytingar vera eitt alvarlegasta vandamál heimsins, en hefur ekki breytt hegðun sinni til að berjast gegn þeim, samkvæmt niðurstöðum nýrrar könnunar.
40% þeirra sem svöruðu könnuninni kvörtuðu yfir því að vera ekki nægilega upplýstir um hvað þeir ættu að taka til bragðs og meira en 75% aðspurðra sögðu iðnaðarfyrirtæki ekki leggja næg lóð á vogarskálarnar þegar kæmi að því að minnka mengun.
„Það er mikill munur á því hvað Evrópubúar segja og hvað þeir gera varðandi loftslagsbreytingar,“ segir Stavros Dimas, meðlimur umhverfisnefndar Evrópusambandsins.
Könnunin var lögð fyrir 30.000 borgara í 30 löndum.
Niðurstaðan er sú að fæstir leggja það á sig að flokka rusl eða minnka orkunotkun sína til að vernda umhverfið, á meðan tæplega tveir þriðju hlutar aðspurðra segja gróðurhúsaáhrif vera annað tveggja stærstu vandamála heimsins í dag. Hitt vandamálið er fátækt.
Þetta kemur fram í frétt Reuters.