Knattspyrnufélögin tólf sem léku í Bestu deild karla síðasta sumar voru rekin með samtals 518 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Þar af hagnaðist knattspyrnudeild Víkings um 416 milljónir króna.

Þetta kemur fram í ársreikningum félaganna fyrir árið 2024.

Í flestum tilfellum ná ársreikningar knattspyrnudeildanna yfir meistaraflokka sem og yngri flokka starfið bæði karla- og kvennamegin. Þess ber þó að geta að í ársreikningi Knattspyrnudeildar Fram kemur fram að reikningurinn nái eingöngu yfir meistaraflokka og 1. flokk, sem sagt ekki yngri flokka starfið.

Knattspyrnudeild Fram skilaði 75 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við einnar milljónar króna tap árið áður. Fram nærri tvöfaldaði tekjurnar á milli ára og námu þær 275 milljónum króna á síðasta ári. Þar af jukust styrkir til deildarinnar um 144 milljónir milli ára, fóru úr 33 milljónum árið áður í 177 milljónir árið 2024.

Á eftir Frömurum koma Stjörnumenn sem skiluðu 69 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samanborið við fjögurra milljóna króna tap árið áður. Tekjur Stjörnumanna jukust um 60% milli ára og námu 563 milljónum króna á síðasta ári.

Þar munar mikið um þátttöku þeirra í forkeppni Sambandsdeildarinnar sem gerði það að verkum að liðurinn „aðrar tekjur“ sem inniheldur m.a. þátttöku á mótum, þ.m.t. í Evrópu, hækkaði um meira en 200 milljónir króna milli ára og nam 519 milljónum.

Reikningur Stjörnunnar sýnir hve mikilvæg tekjulind þátttaka í Evrópukeppni getur verið fyrir íslensk knattspyrnulið. Ársreikningur KA sýnir það einnig, en um 64 milljóna króna neikvæður viðsnúningur varð á afkomu félagsins á síðasta ári vegna skorts á Evrópuleikjum.

Eins og segir í skýrslu stjórnar félagsins spilaði liðið leiki í Evrópukeppni á árinu 2023 „sem hafði veruleg áhrif á bæði tekjur og gjöld félagsins það ár sem að skýrir að stórum hluta miklar sveiflur í rekstrinum milli ára“.

Drógust tekjur félagsins saman um 80 milljónir milli ára sem skilaði sér í 17 milljóna tapi samanborið við 47 milljóna hagnað árið 2023 þegar liðið lék leiki í forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér og blaðið hér.