Brussel ætlar að auka kaup á bandarískum vörum um 50 milljarða evra, eða sem svarar 7.250 milljarða króna, til að bregðast við „vandamálinu“ í viðskiptasambandi aðilanna að sögn Maroš Šefčovič, æðsta samningamanns Evrópusambandsins, og segir að sambandið hafi náð „ákveðnum árangri“ í átt að samkomulagi. Financial Times fjallar um málið í kvöld.
Maroš Šefčovič, sem er viðskiptastjóri ESB, gaf í skyn í viðtali við FT að sambandið myndi ekki sætta sig við að Bandaríkin héldu áfram að leggja 10 prósenta tolla á evrópskar vörur sem hluta af sanngjarnri lausn í viðræðunum.
Háir tollar eiga að taka gildi á vörur frá ESB og fleiri ríkjum í byrjun júlí og nú reynda forsvarsmenn sambandsins að forðast algjört viðskiptastríð milli heimsálfanna.
Samkvæmt Šefčovič hefur nokkur árangur náðst í gegnum margar lotur af viðræðum bæði á fundum og símleiðis, eftir að Donald Trump forseti lagði á og síðar frestaði 20 prósenta tolla á vörur frá ESB. Hann bætti við að „metnaður“ sinn væri enn að ná sanngjörnu samkomulagi við Hvíta húsið.
Šefčovič sagði lykilrök sín gagnvart bandaríska viðskiptafulltrúanum Jamieson Greer og viðskiptaráðherranum Howard Lutnick vera að taka með í reikninginn útflutning Bandaríkjanna á þjónustu til ESB, sem myndi færa heildarviðskiptahallann við Evrópu niður í um 50 milljarða evra. Það væri hægt að loka því bili hratt með auknum kaupum á bandarísku jarðgasi og landbúnaðarvörum, að hans sögn.
„Ef vandamálið sem við horfum á í viðskiptahallanum er 50 milljarðar evra, þá trúi ég að við getum í raun og veruleyst þetta vandamál mjög hratt með kaupum á fljótandi jarðgasi, sumum landbúnaðarvörum eins og sojabaunum eða á öðrum sviðum,“ sagði Šefčovič.
„Það sem skiptir miklu máli er að mér sýnist við skiljum hvort annað aðeins betur — hvaðan þeirra sjónarmið koma. Og ég held að þeir skilji okkur aðeins betur líka,“ bætti hann við. „Mér sýnist við höfum aðeins betri sameiginlega sýn á tölurnar.“
Hann var þó varkár og benti á að það yrði „mjög erfitt“ að ná samkomulagi sem væri „augljóslega gott og ásættanlegt fyrir aðildarríki okkar og Evrópuþingið.“