Evrópuþingið samþykkti í morgun að leggja á sérstakan kolefnisskatt yfir landamæri (e. carbon boarder tax) eða kolefnistoll sem felur í sér að innflytjendur verða rukkaðir fyrir kolefnislosun við framleiðslu á tilteknum vörum. Um er að ræða í fyrsta sinn sem slíkur skattur er innleiddur, samkvæmt Financial Times.

Evrópusambandið hefur rætt um að innleiða sérstakan kolefnisskatt yfir landamæri í nokkurn tíma. Markmið skattsins er að koma í veg fyrir svokallaðan kolefnisleka, þ.e. að framleiðsla verði einfaldlega útvistað til landa með lakari umhverfisstaðla. Stefnt er að því að jafna gjöld á kolefnislosun innan og utan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir.

Evrópuþingið vonast með kolefnistollinum til að vernda evrópskan iðnað sem sæta þarf stífari kröfum og reglugerðum í umhverfis- og loftslagsmálum, þar á meðal að greiða fyrir kolefnisheimildir, heldur en í Asíu.

Lögin taka gildi 1. október 2023 en þó fá innflytjendur aðlögunartíma sem mun m.a. ráðast af áformum Evrópusambandsins um að hverfa frá úthlutun gjaldfrjálsra kolefnisheimilda innan evrópska viðskiptakerfisins með losunarheimildir.

Kolefnistollurinn mun í fyrstu ná til járns, stáls, sements, áls, áburðar, vetni og raforkuframleiðslu ásamt tilteknum járn- og stálvörum.

Evrópuþingmaðurinn Mohammad Chahim, sem er í hollenska verkamannaflokknum, leiddi viðræður um sérstaka kolefnisskattinn á Evrópuþinginu. Hann segir að kolefnistollurinn verði mikilvægur liður í loftslagsstefnu Evrópuþingsins.