Bandaríska olíufyrirtækið Exxon Mobil tilkynnti í dag að það myndi byrja að grafa eftir litíum í Arkansas og áætlar að gerast einn af stærstu birgjum Bandaríkjanna fyrir rafbílaframleiðendur fyrir 2030.

Fréttamiðillinn Wall Street Journal greindi fyrst frá þessu í maí en olíufélagið er sagt vera að endurstilla framtíðaráætlanir sínar þegar kemur að rafvæðingu. Litíum er mikilvægt efni sem notað er í framleiðslu rafgeyma fyrir rafbíla, farsíma og fartölvu.

Kaup Exxon á námuréttindum á rúmlega 120.000 hektara svæði í suðvesturhluta Arkansas kostuðu tæplega 100 milljónir Bandaríkjadali. Samkvæmt ráðgjafa seljandans er áætlað að hægt verði að vinna um 4 milljón tonn af litíum frá svæðinu sem myndi nægja til að knýja 50 milljónir rafbíla.

Á þessu ári hefur litíumverð lækkað um meira en 60% í ljósi þess að nýjar vörur hafa komið inn á markað og eins hefur sala á rafbílum dregist saman.

„Þetta er fullkomið dæmi um hvernig Exxon Mobil getur aukið orkuöryggi í Norður-Ameríku, aukið birgðir af mikilvægu iðnaðarefni og dregið úr losun þegar kemur að flutningum,“ segir Dan Ammann, forstjóri lágkolefnisdeildar Exxon.

Ammann bætir við að fyrirtækið muni vinna litíumið úr saltvatni, sem er mun umhverfisvænni en aðrar aðferðir þar sem vatninu er dælt aftur í ofan í jörðu eftir að búið er að vinna litíumið.