Olíurisinn ExxonMobil hefur kært hóp fjárfesta sem standa fyrir loftslagsaðgerðum til að koma í veg fyrir að tillögur þeirra um loftslagsmál fari til atkvæðagreiðslu á árlegum fjárfestafundi fyrirtækisins.

Kæran beinist gegn hópunum Follow This og Arjuna Capital, sem hafa hvatt Exxon til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Exxon segir að þessir bandarísku og hollensku fjárfestahópar séu knúnir af öfgastefnu.

Það er afar sjaldgæft að fyrirtæki fari í dómstóla til að loka á tillögur eigin hluthafa en þetta er í fyrsta sinn sem Exxon gerir það. Ef fyrirtækið hefur betur í málinu myndi það hafa mikil áhrif á beiðnir hluthafa í framtíðinni.

Skráð fyrirtæki eiga það yfirleitt til að ræða kosti og galla einstakra tillagna við bandaríska verðbréfaeftirlitið (SEC) en gagnrýnendur segja að eftirlitið geti breyst eftir því hvaða ríkisstjórn er við völd.

Exxon segist stefna að því að kolefnisjafna útblástur sinn fyrir árið 2050 samkvæmt umfangi 1 og 2 um losun gróðurhúsalofttegunda en það er hins vegar eina vestræna olíufyrirtækið af fimm sem sleppir því að innleiða umfang 3.

Fyrirtækið vill að héraðsdómari í Texas útiloki tillöguna um að taka umfang 3 inn í umboðsyfirlýsingu sína og hefur Exxon óskað eftir ákvörðun fyrir 19. mars.