Samkvæmt fréttamiðlinum BBC kostaði humarkvöldverður fyrir Karl Bretakonung hátt í 71 milljón króna er hann heimsótti Frakkland í september í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri forsetaskrifstofu landsins.
Veislan fór fram í Versalahöllinni og var hluti af þriggja daga heimsókn Karls konungs til Frakklands sem hafði það hlutverk að styrkja bandalag ríkjanna.
Þar kemur fram að á boðstólum hafi verið blár humar, krabbi og mikið úrval af ostum. Í ársskýrslu segir þó að slíkir kvöldverðir hefðu stuðlað að því að fjárhagsáætlun landsins væri nú 8,3 milljónir evra í mínus.
Af þeirri upphæð sem fór í kvöldverðinn fóru 165 þúsund evrur í veitingar og 40 þúsund evrur í drykki. Gestalistinn var einnig stórglæsilegur en stjörnur á borð við Hugh Grant, Arsene Wenger og Mick Jagger mættu til að gæða sér á humri með konunginum.
Einnig var boðið upp á Bresse-kjúkling og sveppagratín, comté-ost og stichelton-gráðost. Í eftirrétt var svo boðið upp á rósamakkarónuköku sem samanstóð af rósablómakremi, hindberjum og litkí.