Öllum útistandandi kaup- og sölutilboðum á íslenska hlutabréfamarkaðnum var eytt kl. 14:43 á föstudaginn síðasta, 47 mínútum fyrir lokun Kauphallarinnar, vegna mannlegra mistaka. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Nasdaq Iceland sendi frá sér.

Til stóð að ógilda öll tilboð eftir lokun Kauphallarinnar vegna innleiðingar á uppfærðum FIX staðli en þess í stað þurrkuðust öll tilboð út á meðan markaðurinn var enn opinn.

Íslenski hlutabréfamarkaðurinn var þó nokkuð rólegur á föstudaginn en velta á aðalmarkaðnum var með minnsta móti og nam aðeins um 1,2 milljörðum króna. Ólíklegt er því að mistökin hafi komið í veg fyrir mikil viðskipti.

Yfirlit Keldunnar af aðalmarkaði Kauphallarinnar rétt fyrir klukkan þrjú á föstudaginn.
Yfirlit Keldunnar af aðalmarkaði Kauphallarinnar rétt fyrir klukkan þrjú á föstudaginn.