Ný húsaleigulög tóku gildi um síðustu helgi en Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, segir breytingarnar bæði fela í sér kosti og galla. Jákvætt sé að verið sé að stíga skref í áttina að því að minnka óvissu fólks á leigumarkaði.
Ný húsaleigulög tóku gildi um síðustu helgi en Már Wolfgang Mixa, dósent í fjármálum við Háskóla Íslands, segir breytingarnar bæði fela í sér kosti og galla. Jákvætt sé að verið sé að stíga skref í áttina að því að minnka óvissu fólks á leigumarkaði.
„Þetta gerir leigusölum erfiðara um vik að fleygja fólki út kannski þrjá mánuði á ári af því að það ætlar í Airbnb leigu, að hentisemi ráði för varðandi hækkun á leiguverði þar sem dæmi eru um það að leiguverð hafi hækkað mjög mikið, og að það séu einhverjir fyrirvarar og ástæður fyrir því að leigu sé sagt upp. Þannig að fólk hafi aðeins betra tækifæri til að festa rætur,“ segir Már en á móti geti takmarkanir á hækkun leiguverðs haft neikvæð áhrif.
„Það er ekki sagt en það er í raun verið að setja á ákveðna svona leigubremsu að því leytinu til að leigusali verður að benda til sambærilegrar hækkunar á leiguverði eða leigutaki að koma með rök fyrir því að leigan sé of há og benda þá á einhverjar markaðsaðstæður. Þetta er mjög flókið og loðið.“
Breytingarnar í núverandi mynd geti einnig leitt til þess að leigusalar ákveði strax í upphafi að hækka leiguverð.
„Ég held að það sé nánast sjálfgefið, í hið minnsta með skammtímasamninga. Ef þú ert farinn að taka á þig óvissuna af væntri verðbólgu þá leiðir það einfaldlega til þess að leigusali hækki upphaflegt leiguverð og komi með þau rök að þeir séu í raun og veru að veita afslátt á verðbólgu næstu tólf mánaða, bæði raunverðbólgu og jafnvel bætir við einhverju óvissuálagi.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.