Ísland og Evrópusambandið undirrituðu í gær, 15. júlí, viljayfirlýsingu um aukið samstarf í málefnum hafsins og sjávarútvegi. Yfirlýsingin var undirrituð af Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra og Costas Kadis sjávarútvegsstjóra Evrópusambandsins.
Viljayfirlýsingin var undirrituð degi eftir að frumvarp ríkisstjórnarinnar um hækkun veiðigjalda var samþykkt á Alþingi.
„Sameiginleg gildi og sameiginlegir hagsmunir“
Í tilkynningu atvinnuvegaráðuneytisins segir að yfirlýsingin sé grunnur að auknu framtíðarsamstarfi sem byggi á „sameiginlegum gildum og sameiginlegum hagsmunum“.
„Yfirlýsingin gerir einnig ráð fyrir auknu og víðtækara samstarfi milli ESB og Íslands um ýmis atriði tengd hafinu, s.s. sjálfbærum fiskveiðum, vísindarannsóknum og verndun hafsins. Einnig er stefnt að auknu samstarfi við verndun líffræðilegs fjölbreytileika og orkuskipti í sjávarútvegi og fiskeldi.“
Ráðuneytið segir mikilvægan þátt viljayfirlýsingarinnar vera árlegan samráðsfund ráðherra sjávarútvegsmála Íslands og sjávarútvegsstjóra ESB sem haldinn verð til skiptis af ESB og Íslandi. Fyrsti fundurinn sé áætlaður í byrjun ársins 2026.
„ESB og Ísland hafa lengi verið í öflugu og nánu samstarfi á sviði fiskveiða og hafmála. Þessi viljayfirlýsing styrkir samstarfið enn frekar með því að skapa formlega umgjörð fyrir aukið samstarf á þessu sviði.“
„Ísland hefur náin tengsl við ESB og við deilum gildum og hagsmunum á flestum sviðum,“ sagði Hanna Katrín við undirritun. „Með þessari viljayfirlýsingu erum við að sýna gagnkvæman vilja okkar um samstarf til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og takast á við fjölmargar áskoranir tengdar hafmálum í Norður-Atlantshafi – bæði í dag og til framtíðar.“
„Ísland er sögulega náinn samstarfsaðili ESB,“ er haft eftir Costas Kadis. „Í dag erum við að dýpka samstarf okkar til að tryggja sjálfbærar fiskveiðar og efla samstarf í hafmálum. Þetta mun hjálpa okkur að takast á við sameiginlegar áskoranir í Norður-Atlantshafi og á norðurslóðum sem krefjast munu mjög aukinnar alþjóðlegrar samvinnu á næstu árum.“