Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest ehf., stærsti hluthafi Marels með 24,7% hlut, fær tæplega 240 milljónir evra, eða hátt í 35 milljarða króna, og yfir 5 milljónir hluta í JBT sem eru tæplega 88 milljarðar króna að markaðsvirði, sem endurgjald fyrir að samþykkja yfirtökutilboð JBT á Marel, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.

Samtals nemur söluandvirði Eyris því yfir 120 milljörðum króna miðað við núverandi markaðsvirði JBT.

Tilkynnt var á föstudaginn síðasta að hlut­hafar Marels sem eiga 97,5% af út­gefnum og útistandandi hlutum í félaginu hafi samþykkt yfirtökutilboð John Bean Technologies (JBT). Þar með var uppfyllt skilyrði um samþykki eigenda 90% eignarhlutar í Marel.

Öll skil­yrði valfrjálsa yfirtökutil­boðsins nú verið upp­fyllt. Gert er ráð fyrir að endanlegt uppgjör tilboðsins muni fara fram þann 2. janúar 2025. Hluthafar Marels sem samþykktu tilboðið fá sem endurgjald fyrir hvern hlut í Marel annað hvort reiðufé, hluti í JBT eða blöndu af reiðufé og hluti í JBT, og er endurgjaldið háð hlutföllun í samræmi við skilmála tilboðsins.

Í tilkynningu sem Marel sendi frá sér um viðskipti stjórnenda kemur fram að Noruz ehf., félag tengt Ólafi Steini Guðmundssyni, varaformanni Marels, fái 362,2 þúsund evrur, eða um 50,5 milljónir króna, og 8.129 hluti í JBT, sem eru yfir 140 milljónir króna að markaðsvirði, sem endurgjald í viðskiptunum. Noruz ehf. er dótturfélag Noruz US Holdings Inc. sem er að 1% leyti í eigu Ólafs Steins og eiginkonu hans en 99% í eigu sjóðs í þágu fjölskyldu Ólafs. Noruz á auk þess 3% hlut í Eyri Invest.

Þá fær Ólafur Steinn í eigin nafni tæplega 1,7 milljónir evra, eða um 246 milljónir króna, og 38.082 hluti í JBT sem eru yfir 660 milljónir króna að markaðsvirði, í skiptum fyrir hlut sinn í Marel.

Ólafur Steinn Guðmundsson, varaformaður Marels.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Árni Sigurðsson, sem tók í lok síðasta árs við sem forstjóri Marels eftir að hafa starfað hjá félaginu frá árinu 2014, fær 820 þúsund evrur, eða um 119 milljónir króna, og 17.247 hluti í JBT, sem eru um 300 milljónir króna að markaðsvirði, í skiptum fyrir hlut sinn í Marel.

Árni Sigurðsson, forstjóri Marels.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marels, fær tæplega 302 þúsund evrur, eða hátt í 44 milljónir króna, og 6.774 hluti í JBT, sem eru um 118 milljónir króna að markaðsvirði, sem endurgjald fyrir að samþykkja tilboð JBT.

Arnar Þór Másson, stjórnarformaður Marels. .
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Davíð Freyr Oddsson, framkvæmdastjóri mannauðsmála hjá Marel, samþykkti tilboðið og fær fyrir vikið 514 þúsund evrur, eða um 74,6 milljónir króna, og 11.540 hluti í JBT sem eru yfir 200 milljónir króna að markaðsvirði.