Eyrir Invest hf. hefur ákveðið að lækka hlutafé félagsins um 812,7 milljónir króna að nafnverði og greiða hluthöfum út, að hluta til í formi hlutafjár í JBT Marel Corporation (JBTM). Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Hluthafar Eyris Invest hf. munu fá 0,00373 hluti í JBT Marel Corporation fyrir hvern hlut sem þeir eiga í Eyri Invest hf.
Viðmiðunargengi hlutanna var fest við dagslokagengi JBTM þann 11. mars 2025, sem var 16900 krónur á hlut. Sé miðað við það er virði hlutanna sem hluthafar fengu um 51,25 milljarðar króna.
Hlutafjárlækkunin mun þannig fela í sér úthlutun á hlutum í JBTM til hluthafa, í stað beinnar fjárhæðar í reiðufé.
Eftir uppgjör hlutafjárlækkunarinnar mun Eyrir Invest hf. eiga 284.948 hluti í JBT Marel Corporation, sem samsvarar 0,55% af heildaratkvæðavægi félagsins. Fyrir viðskiptin átti Eyrir Invest 3.317.662 hluti í JBTM.
Aðgerðin er liður í endurskipulagningu eignasafns Eyris Invest hf., en félagið hefur á síðustu árum dregið úr eignarhlut sínum í Marel og öðrum tengdum félögum. Með þessu skrefi færist eignarhald á JBTM að hluta yfir til hluthafa Eyris Invest hf.
Í tilkynningu frá Eyri segir að félagið fagni 25 ára afmæli sínu á þessu ári og standi á merkum tímamótum.
Á aðalfundi félagsins sem haldinn var í gær, þann 27. mars 2025, samþykktu allir hluthafar félagsins tillögu stjórnar um lækkun hlutafjár með greiðslu til hluthafa.
Tillagan var í samræmi við niðurstöðu valfrjálss tilboðs til hluthafa um þátttöku í fyrirhugaðri hlutafjárlækkun og nam þátttaka hluthafa í hlutafjárlækkuninni um 91% af útistandandi hlutafé. Allir hluthafar félagsins kusu að taka þátt í tilboðinu að hluta eða öllu leyti.
Eyrir Invest var stofnað árið 2000 af Þórði Magnússyni og Árna Oddi Þórðarsyni. Síðar bættust við aðrir hluthafar, þar á meðal fjársterkir einkafjárfestar og stofnanafjárfestar.
Eftir hlutafjárlækkunina verða stofnendur Eyris Invest einu hluthafar félagsins með jafnan eignarhlut, Þórður Magnússon í eigin nafni og Árni Oddur Þórðarson í gegnum eignarhaldsfélögin Sex álnir ehf. og 12 Fet ehf. sem eru að fullu í hans eigu.
„Við fögnum niðurstöðu aðalfundar sem við teljum afar farsæla lausn fyrir alla hluthafa. Þetta eru mikilvæg tímamót í sögu Eyris Invest. Fyrir hönd stjórnar vil ég þakka hluthöfum og samstarfsaðilum fyrir gott og farsælt samstarf á undanförnum misserum. Við hlökkum til að fylgjast með félaginu á komandi árum.“ segir Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Eyris Invest.
Endurgjald lækkunarinnar er í formi hlutabréfa í JBT Marel Corporation og Fræ Capital hf., í hlutfalli við eignarhlut í Eyri Invest.
Félagið afhendir hluthöfum 3.032.714 hluti í JBT Marel og mun að loknu uppgjöri eiga 284.948 hluti sem samsvarar 0,55% eignarhlut í JBT Marel. Eyrir Invest gerði upp allar skuldbindingar við lánveitendur í janúar og er skuldlaust.
„Eyrir Invest var kjölfestufjárfestir í Marel frá árinu 2005 og hafði lykiláhrif á vöxt og þróun félagsins. Á þeim tíma jukust tekjur Marel úr 129 milljónum evra í yfir 1.700 milljónir evra og starfsmannafjöldi úr 800 í yfir 7.000 í yfir 30 löndum. Á sama tímabili skilaði Marel ávöxtun til hluthafa sem var sambærileg við bestu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu. Samruni Marel og JBT var í samræmi við langtímasýn Eyris Invest fyrir áframhaldandi vöxt Marel. Sameinað félag JBT Marel er leiðandi alþjóðlegur framleiðandi á búnaði, samþættri tækni og þjónustu fyrir matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn,“ segir í tilkynningu félagsins.
Stjórn Eyris Invest var endurkjörin á aðalfundi en í kjölfar uppgjörs við fráfarandi hluthafa verður boðað til hluthafafundar þar sem ný stjórn tekur við.