Í kjölfar samruna Marel hf. og John Bean Technologies Corporation er Eyrir Invest hf. einn stærsti hluthafi í JBT Marel Corporation með 6,6% eignarhlut.
Samkvæmt tilkynningu frá félaginu hefur Eyrir Invest gert upp allar skuldbindingar við lánveitendur og er nú skuldlaust.
Eyrir Invest studdi samruna Marel og JBT frá upphafi en félagið segir að samruninn leggi traustan grunn að framtíðarvexti sameinaðs félags.
Hið sameinaða félag JBT Marel er leiðandi alþjóðlegur framleiðandi á búnaði, samþættri tækni og þjónustu fyrir matvæla- og drykkjarvöruiðnaðinn.
Tekjur JBT Marel síðustu 12 mánuði námu um 3,5 milljörðum bandaríkjadala og eru starfsmenn um 12.000 í yfir 30 löndum.
„Þetta eru spennandi tímamót fyrir Eyri Invest, Marel og JBT. Við erum stolt af því að hafa tekið þátt í þessari einstöku vegferð sem hefur skilað þessari farsælu niðurstöðu og við hlökkum til að fylgjast með framtíð þessa öfluga félags,“ segir Friðrik Jóhannsson, stjórnarformaður Eyris Invest.
Hluthafafundur í febrúar
Eyrir Invest var kjölfestufjárfestir í Marel frá árinu 2005 og hefur með aðkomu sinni átt stóran þátt í vexti og þróun félagsins.
Á síðustu tveimur áratugum jukust tekjur Marel úr 129 milljónum evra í yfir 1.700 milljónir evra og starfsmannafjöldi jókst úr 800 í yfir 7.000 starfsmenn í yfir 30 löndum.
Á sama tímabili skilaði Marel ávöxtun til hluthafa sem var sambærileg við bestu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum og Evrópu, segir í tilkynningu Eyris.
„Til að tryggja áframhaldandi gagnsæi og samráð við hluthafa mun Eyrir Invest halda hluthafafund í febrúar. Á fundinum verður farið yfir stöðu félagsins og tillögur stjórnar um framhaldið kynntar. Um 90% af eignum félagsins eru hlutabréf í JBT Marel,“ segir í tilkynningunni.
Eyrir Invest hf. er alþjóðlegt fjárfestingarfélag stofnað árið 2000 af Þórði Magnússyni og Árna Oddi Þórðarsyni.
Auk fjárfestingarinnar í Marel var Eyrir m.a. stór hluthafi í Össuri hf., nú Embla Medical hf., frá 2004 til 2011.
Eyrir Invest spilaði lykilhlutverk í að styðja við vöxt og alþjóðavæðingu þessara fyrirtækja. Eyrir Invest hefur einnig fjárfest umtalsvert í sprota- og vaxtarfyrirtækjum, bæði með beinum hætti og í gegnum sérhæfða fjárfestingasjóði.