Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marels, tapaði 555 milljónum evra á síðasta ári, eða sem nemur 79 milljörðum króna á meðalgengi síðasta árs. Til samanburðar hagnaðist fjárfestingarfélagið um 164 milljónir evra árið 2021.
Tap Eyris Invest í fyrra má einkum rekja til þess að gangvirði 24,7% eignarhlutar félagsins í Marel dróst saman um 514 milljónir evra og nam 614 milljónum evra eða 93 milljörðum króna í árslok 2022. Lækkunin var í samræmi við 46% lækkun á hlutabréfaverði Marels í fyrra.
Auk eignarhlutarins í Marel á Eyrir Invest á í sjóðum í stýringu hjá dótturfélaginu Eyri Venture Management. Eyrir Invest á 46,5% hlut í Eyri sprotum, 23,4% hlut í sprotasjóðnum Eyri vexti og allt hlutafé Eyri Ventures. Einnig á Eyri Invest 9% hlut í CRI í gegnum félagið Grænt metanól.
Eignir Eyris Invest voru bókfærðar á 686 milljónir evra, eða um 104 milljarða króna, í lok síðasta árs. Eigið fé var um 354 milljónir evra eða um 53,6 milljarðar króna.
Stærstu hluthafar Eyris Invest eru feðgarnir Þórður Magnússon og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, sem áttu samtals 38,8% hlut í lok síðasta árs. Þar á eftir kemur Landsbankinn með 14,2% hlut.
Tíu stærstu hluthafar Eyris Invest í árslok 2022
Hlutur |
20,7% |
18,1% |
14,2% |
11,6% |
11,3% |
3,4% |
3,1% |
3,0% |
3,0% |
2,6% |
91,0% |
Í kjölfar verðlækkunar á gengi Marels tók Eyrir Invest nýtt lán frá fjárfestingarsjóðunum JNE Partners LLP og The Baupost Group í byrjun nóvember að fjárhæð 175,0 milljónir evra eða um 25 milljarða króna. Lánið er til fjögurra ára og ber 15,0% nafnvexti sem leggjast við höfuðstól árlega.
Fjárfestingarsjóðirnir hafa á gjalddaga lánsins einhliða rétt til þess að fá lánið endurgreitt með handbæru fé eða að taka við, sem fullnaðargreiðslu, 62.724.015 hlutum í Marel eða sem nemur tæplega 8% hlut.