Félag atvinnurekenda (FA) telur Ríkisendurskoðun hafa skort hæfi til að framkvæma úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu sem stofnunin vann að beiðni Alþingis. FA byggir það á að Ríkisendurskoðun hafi verið ráðgjafi Íslandspósts (ÍSP) í deilum ríkisfyrirtækisins við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (SRN), nú innviðaráðuneytið, um fjárhæð framlaga vegna alþjónustu. Þetta kemur fram í minnisblaði FA til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

Félag atvinnurekenda (FA) telur Ríkisendurskoðun hafa skort hæfi til að framkvæma úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu sem stofnunin vann að beiðni Alþingis. FA byggir það á að Ríkisendurskoðun hafi verið ráðgjafi Íslandspósts (ÍSP) í deilum ríkisfyrirtækisins við samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið (SRN), nú innviðaráðuneytið, um fjárhæð framlaga vegna alþjónustu. Þetta kemur fram í minnisblaði FA til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis.

FA bendir á að þannig hafi Ríkisendurskoðun farið yfir allar tölur sem ÍSP notaði í líkani sínu og lagði fram í deilu sinni við ráðuneytið. Þar með hafi Ríkisendurskoðun tekið afstöðu til túlkunar þeirra lagaákvæða sem lögð voru til grundvallar útreikningi á hreinum kostnaði alþjónustu.

„Það er með miklum ólíkindum að Ríkisendurskoðun hafi ekki gert grein fyrir að stofnunin hafi haft beina aðkomu að málinu sem ráðgjafi alþjónustuveitandans sem beiðni Alþingis snýr að. Það ætti ekki vefjast fyrir neinum að stofnunin hafi með ráðgjafahlutverki sínu skapað sér vanhæfi til að vinna skýrslu um málið að beiðni Alþingis,“ segir í minnisblaðinu þar sem FA vísar máli sínu til stuðnings í minnisblað forstjóra ÍSP sem lagt var fram á fundi með samgönguráðherra 18. nóvember 2019:

„Útreikningar í kringum póstþjónustu eru flóknir og byggja á ákveðinni hugmyndafræði og reiknilíkani. Pósturinn hefur fengið Ríkisendurskoðun til þess að fara yfir allar tölur sem notaðar eru í líkaninu og þá hefur líkanið sjálft verið afhent Póst og fjarskiptastofnun til yfirferðar.

Íslandspóstur hefur þá skoðun að sú aðferðarfræði og þær tölur og forsendur sem lagðar hafa verið fram séu traustar og réttar og endurspegli raunverulegan kostnað við þessa starfsemi. Ekkert efnislegt svar eða rökstuddar athugasemdir við útreikninginn hafa borist frá SRN utan þess að fulltrúar þeirra hafa sagt á fundum að verðið sé of hátt en ekki geta rökstutt þá skoðun sína á nokkurn hátt.“

Í minnisblaðinu segir FA það vekja furðu að ríkisendurskoðandi, sem starfi á vegum Alþingis og sé trúnaðarmaður þess og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins, taki að sér ráðgjafarhlutverk gagnvart markaðsaðila í deilum hans við ríkið.

„Fram kemur að ríkisendurskoðandi telji spurningar Alþingis óvanalegar og lúti ekki að lögbundnu hlutverki og verksviði stofnunarinnar. Á sama tíma virðist hann telja eðlilegt að veita markaðsaðila ráðgjöf í deilum hans um fjárframlög úr ríkissjóði,“ segir í minnisblaði FA.

Taldi ekki ástæðu til heildstæðrar úttektar

Um miðjan mars skilaði Ríkisendurskoðun af sér úttekt á framkvæmd og eftirliti með lögum um póstþjónustu. Stofnunin ákvað að frumathugun lokinni að leggja ekki í heildstæða úttekt á grundvelli beiðni Alþingis. Í útdrætti skýrslunnar segir að kannað hafi verið í kjölfarið hvort virðisauki væri í því fólginn að skoða alþjónustu í póstdreifingu með almennum hætti en niðurstaðan verið sú að svo væri ekki á þessum tímapunkti. Ríkisendurskoðun hafi engu að síður tekið saman svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram í beiðni Alþingis. Margt af því sem spurt var um í beiðninni hafi fengið úrlausn hjá eftirlitsaðilum og í þeim tilvikum hafi verið vísað til þeirra ákvarðana.

Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.