Bæði flugmenn og flugfreyjur og flugþjónar fengu að meðaltali 140 til 150 þúsund krónur á mánuði í skattfrjálsa dagpeninga á síðasta ári að því er Morgunblaðið greinir frá.
Bætast þeir ofan á meðallaunin, sem eru 1,1 milljón á mánuði hjá flugmönnum félagsins en 520 þúsund hjá flugfreyjum og flugþjónum. Yfirmenn í báðum stéttum fá þónokkuð hærra hins vegar, það er 2,1 milljón hjá flugstjórum en yfirflugfreyjur fengu að meðaltali 740 þúsund krónur.
Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað ítarlega um stendur Icelandair frammi fyrir því að þurfa að endursemja við báðar stéttir til að geta farið í hátt í 30 milljarða króna hlutafjárútboð sem fleyta á félaginu yfir nær enga eftirspurn og ferðabönn meðan á kórónuveirufaraldrinum stendur.
Hafa bæði stéttarfélög flugmanna og flugfreyja hafnað tilboðum Icelandair sem gæti þýtt að félagið verði sett í gjaldþrot og nýtt stofnað á þeim grunni sem ekki yrði bundið núverandi kjarasamningum sem sagðir eru mun veglegri en hjá keppinautum félagsins.