Jón Sigurðsson, forstjóri Stoða, rekur þær stóru áskoranir sem stjórnendur og starfsfólk Bláá Lónsins glíma við vegna jarðhræringa í bréfi til hluthafa. Fjárfestingarfélagið er einn af stærstu hluthöfum Bláa Lónsins með 7,32% eignarhlut sem metinn er á 5,6 milljarða króna. Það samsvarar 76,5 milljarða hlutafjárvirði félagsins.
„Líkt og í fyrra var ákveðið að halda mati á eignarhlut Stoða í Bláa Lóninu óbreyttu enda hefur verið mikil óvissa um rekstur félagsins vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Verðmæti eignarhlutar Stoða í Bláa Lóninu nemur 10,7% af eigin fé Stoða,“ segir í bréfinu til hluthafa.
Jón rekur að Bláa Lónið hafi haldið áfram að glíma við áskoranir í rekstri á síðasta ári en þegar talið var upp úr kössunum hafi verið lokað í 71 dag í Bláa Lóninu og 76 daga á hótelum félagsins vegna jarðhræringa.
„Ég leyfi mér að fullyrða að fá fyrirtæki gætu komist í gegnum viðlíka aðstæður en með einstakri útsjónarsemi stjórnenda og starfsfólks hefur þrátt fyrir allt tekist að lágmarka skaðann. Það er að sama skapi ánægjulegt að sjá að flestir eru nú farnir að átta sig á mikilvægi Bláa Lónsins fyrir íslenska ferðaþjónustu og þar af leiðandi fyrir hagkerfið allt. Ekkert íslenskt vörumerki er jafn þekkt og Bláa Lónið og því er mikilvægt að gera allt sem hægt er til að lágmarka þann tíma sem þarf að loka við hvern atburð. Enn og aftur er rétt að þakka sérstaklega stjórnendum og starfsfólki Bláa Lónsins en segja má að félagið hafi ekki starfað við eðlilegar aðstæður í 6-7 ár, það reynir sannarlega á. Einnig verður að þakka viðbragðsaðilum og þeim sem lögðu nótt við nýtan dag við að byggja upp varnargarðana sem verja mannvirki frá eldsumbrotunum.“
Árið 2024 hafi reynst enn meiri áskorun fyrir starfsfólk og rekstur Bláa Lónsins en árið 2023 þegar jarðhræringar hófust. „Þegar árið var liðið höfðu bæst við 6 eldgos sem samtals voru virk í 121 dag eða um þriðjung af árinu. Þar að auki urðu til nýjar áskoranir í hvert skipti sem gaus sem hafði áhrif á hversu fljótt var hægt að opna aftur. Hraun rann yfir vegi, hraun skemmdi hitavatnslagnir, gasmengunar varð vart og síðast en ekki síst hvarf bílastæði félagsins undir hraun í lokaeldgosi ársins. Starfsfólk sýndi af sér mikinn dugnað í sínum viðbrögðum við þessum aðstæðum og það er óhætt að fullyrða að fá félög hafa þurft að starfa undir jafn krefjandi aðstæðum.“
Varnargarðarnir mögnuð mannvirki
Það jákvæða í þessu öllu saman sé að varnargarðarnir hafi sannað gildi sitt ítrekað. Þeir hafI varið ekki bara Bláa Lónið heldur líka orkuver HS Orku í Svartsengi.
„Það er í raun ekki hægt að lýsa með orðum hvílík mannvirki varnargarðarnir eru, en á köflum eru þeir orðnir yfir 20 metra háir eða ígildi 6-7 hæða húss. Sjón eru sögu ríkari og eru hluthafar hvattir til að fá sér sunnudagsbíltúr og kynna sér aðstæður.“
Annað jákvætt við allar þessar raunir sé að sjá hversu sterkt vörumerki Bláa Lónið er. Um leið og opnað sé aftur fyllist lónið af lífi og þúsundir gesta streymi að á hverjum degi. Hótel félagsins séu líklega einna best nýttu hótel landsins og virðist vart skipta máli hvaða árstíð sé. Þá hafi uppbygging haldið áfram í Svartsengi enda enginn afsláttur gefinn af gæðum og upplifun gesta. Endurnýjun sé í gangi á öllum klefum og útisvæði, nýtt bílastæði til bráðabirgða hafi verið tekið í gagnið á mettíma og unnið sé að endurhönnun á allri aðkomu fyrir gesti. Þetta sé aðeins lítill hluti af þeim verkefnum sem unnið sé að til að tryggja rekstur félagsins til langs frama.
„Á sama tíma og verkefni í Svartsengi eru ærin hefur félagið haldið áfram að styðja við uppbyggingu og endurnýjun á baðlónum um land allt sem félagið á í gegnum hlutdeildarfélög og undirbúningur fyrir uppbyggingu starfsemi félagsins í Þjórsárdal er í fullum gangi. Jafnframt var ráðinn nýr framkvæmdastjóri fyrir Skincare hluta starfseminnar og er unnið að enn frekari markaðsetningu á húðvörum Blue Lagoon til viðskiptavina hérlendis sem og erlendis,“ segir í bréfinu.
Skráning í Kauphöllina ólíkleg á þessu ári
Í ljósi fyrrgreinds sé ólíklegt að tækifæri myndist til að skrá félagið í Kauphöllina á þessu ári en vonir standi til að það geti mögulega gerst strax á næsta ári. Forsenda þess sé að framangreindir ytri þættir í rekstrarumhverfi félagsins verði hagfelldari á þessu ári.