Ríkisskattstjóri hefur ekki tekið saman á hve mörg mál niðurstaða Hæstaréttar í hlutdeildarmálinu svokallaða mun hafa áhrif. Dómurinn kvað á um að það að greiða út arð á grundvelli hlutdeildar í afkomu dótturfélaga stæðist ekki lög og að um ólögmæta arðgreiðslu hefði því verið að ræða.
Álitamál hafa í kjölfarið verið uppi um hvað telst frjáls sjóður í bókum félaga og einhver kynnu að vera með „sýkt eigið fé“. Áfrýjunarleyfi í málinu var veitt á þeim grunni að dómur í málinu kynni að hafa áhrif á fjölda félaga. Þrátt fyrir fullyrðingar um mikil áhrif dómsins hefur Viðskiptablaðið heimildir fyrir því að lítið sem ekkert hafi verið gert með dóminn.
- Sjá meira: Dómur Hæstaréttar opni Pandórubox
„Ríkisskattstjóri hefur ekki tekið saman, og hefur ekki forsendur til að leggja í þá vinnu að upplýsa hversu mörgum málum, þar sem reynt hafi á sambærileg atriði, hafði verið lokið eða hafi verið í vinnslu á þeim tíma sem [dómur féll],“ segir í svari Skattsins við fyrirspurn blaðsins.