Myllan-Ora fær undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að taka yfir daglegan rekstur Gunnars meðan samrunatilkynning félaganna er til meðferðar hjá eftirlitinu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.
Staða félagsins er talin það slæm að mikilvægt sé að kaupandinn komi að rekstri þess sem allra fyrst en félagið hefur verið rekið með rekstrartapi um langt skeið. Þannig hafi félagið stefnt að óbreyttu í gjaldþrot.
Ráðist hefur verið út í aðgerðir til að vinda ofan af rekstrarhalla félagsins og koma því í skjól í samvinnu við kaupanda.
Í byrjun desember var tilkynnt um kaup Myllunnar-Ora á Gunnars sem frameliðir majónes, sósur og ídýfur. Myllan-Ora, sem hét áður ÍSAM ehf., á og rekur matvöruframleiðslu undir merkjum Myllunnar, Kexsmiðjunnar, Fróns og Ora.
Fyrirhuguð sala Gunnars hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri. Kaupfélag Skagfirðinga náði samkomulagi um kaup á félaginu árið 2022.
Samkeppniseftirlitið ógilti hins vegar viðskiptin í byrjun síðasta árs á þeim forsendum að með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir stærstu framleiðendur á majónesi og köldum sósum á Íslandi.