Hlutabréf Meta, móðurfélags Facebook, hafa fallið um 20% í viðskiptum fyrir opnun markaða en netrisinn birti uppgjör í gærkvöldi. Markaðsvirði Meta hefur fallið um ríflega 65 milljarða dala eða sem nemur um 9.250 milljörðum króna. Hlutabréfaverð félagsins hefur ekki verið lægra frá árinu 2016.

Tekjur Meta á þriðja ársfjórðungi drógust saman um 4% á milli ára og námu 27,7 milljörðum dala. Tekjur félagsins drógust einnig saman um 1% á öðrum fjórðungi. Fyrirtækið áætlar að tekjur á yfirstandandi fjórðungi verði á bilinu 30-32,5 milljarðar dala en greiningaraðilar höfðu áður spáð að þær yrðu um 32,2 milljarðar dala.

Meta fæst nú við aukna samkeppni frá öðrum samfélagsmiðlum á borð við TikTok. Félagið glímir enn við breytingar á persónuverndarstefnu Apple sem gerir Facebook m.a. erfiðara að safna persónuupplýsingum og miðla auglýsingum á tiltekna hópa.

Hagnaður Meta dróst saman um meira en helming á milli ára og nam 4,4 milljörðum dala á fjórðungnum. Greiningaraðilar áttu von á að hagnaðurinn yrði nær 5 milljörðum dala.

Hlutabréf Meta hafa lækkað um meira en 70% frá því að gengi félagsins fór hæst í 378 dali á hlut í september 2021. Auðæfi Mark Zuckerberg fóru um tíma yfir 130 milljarða dala en samkvæmt rauntímalista Forbes eru þau komin niður í 47 milljarða dala.