Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, hefur kynnt breytt skipurit á spítalanum sem felur í sér að framkvæmdastjórum fjölgar úr 8 í 11 en störf 10 forstöðumanna falla niður. Stjórn Landspítala hefur farið yfir og samþykkt tillögu að breyttu stjórnskipulagi.
Runólfur segir í frétt á vef Landspítala að breytingarnar séu niðurstaða nokkurra mánaða greiningar. Með breytingum sé aukin ábyrgð og umfang fært til klínískra stjórnenda í framlínu.
„Megináherslan í nýju stjórnskipulagi er að styrkja klíníska starfsemi spítalans með því að færa aukið umboð og ákvörðunarvald nær framlínu þar sem þjónustan er veitt. Þverfagleg klínísk starfsemi allra fagstétta spítalans fái þannig styrkari grunn til að eflast.“
Sjö störf framkvæmdastjóra klínískra eininga og tvö störf framkvæmdastjóra stoðsviða verða auglýst til umsóknar á næstunni. Nýverið lét framkvæmdastjóri hjúkrunar af störfum og verður sú staða því einnig auglýst.
Meðal aðgerða sem ráðist er í er sameining skurðlækningaþjónustu og skurðstofustarfsemi, sameining á klínískri rannsóknarstarfsemi og klínískri stoðþjónustu ásamt því að fjármál og mannauðsmál eru sameinuð undir stjórn framkvæmdastjóra rekstrar og mannauðs „sem að enn fremur verður falin stýring á framleiðni spítalans og almennri stoðþjónustu“.
„Ég er sannfærður um að sú einföldun á stjórnskipulagi sem nú er ráðist í leiði ekki aðeins til hagræðingar í rekstri heldur framar öllu til þess að styrkja og efla alla starfsemi Landspítala með megináherslu á klíníska þjónustu spítalans,“ segir Runólfur sem kynnti breytingarnar fyrir heilbrigðisráðherra í morgun.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/120023.width-1160.jpg)