Greining Íslandsbanka gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 0,4% en til samanburðar spáði greiningardeildin 0,9% hagvexti í ár í þjóðhagsspá sinni sem gefin var út í maí. Breytt spá skýrist einkum af lakari horfum í ferðaþjónustu.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segist í grein á vef bankans nú telja líklegra að erlendir ferðamenn sem koma til Íslands í ár verði eitthvað færri en í fyrra fremur en að þeim fjölgi milli ára. Til samanburðar spáði bankinn í maí að ferðamönnum myndi fjölga um 4% milli ára.

Greining Íslandsbanka gerir nú ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði 0,4% en til samanburðar spáði greiningardeildin 0,9% hagvexti í ár í þjóðhagsspá sinni sem gefin var út í maí. Breytt spá skýrist einkum af lakari horfum í ferðaþjónustu.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segist í grein á vef bankans nú telja líklegra að erlendir ferðamenn sem koma til Íslands í ár verði eitthvað færri en í fyrra fremur en að þeim fjölgi milli ára. Til samanburðar spáði bankinn í maí að ferðamönnum myndi fjölga um 4% milli ára.

„Það gæti leitt til minni hagvaxtar, minnkað líkur á styrkingu krónu, hraðað kólnun hagkerfisins og dregið úr spennu á vinnu- og íbúðamarkaði fyrr en áður var talið.“

Horfur fyrir háannatímabilið versnað

Frá áramótum hafa 963 þúsund erlendir farþegar farið um Keflavíkurflugvöll, sem jafngildir 1% fjölgun milli ára, samkvæmt tölum Ferðamálastofu. Brottfarir erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll í júní fækkaði þó um 9% milli ára og voru um 212 þúsund.

Jón Bjarki segir að fjöldi ferðamanna í júní hafi verið umtalsvert færri en Greining Íslandsbanka spáði í þjóðhagsspá sem bankinn birti í maí. Árið hafi farið vel af stað en á öðrum fjórðungi fór svo að síga ógæfuhliðina en heimsóknum ferðafólks frá apríl til júní fækkaði um 5% frá sama tímabili í fyrra.

„Horfur fyrir háönn og þar með ferðaþjónustuárið í heild eru lakari en spáð var í maí. Ef marka má nýleg ummæli ýmissa forkólfa ferðaþjónustunnar í fjölmiðlum gefur júnímánuður líklega tóninn fyrir sumarið í heild.“

Dvalartími styttist og meðaltekjur af hverjum ferðamanni lækka

Auk þess sem fækkun ferðamanna virðist nú líkleg þá segir Jón Bjarki að margt bendi til þess að dvalartími ferðamanna sé að styttast og tekjur af hverjum þeirra að dragast saman að raunvirði. Hann vísar þar í hagtölur um gistinætur og veltu í einkennandi greinum ferðaþjónustu.

Á fyrstu fimm mánuðum ársins fækkaði gistinóttum útlendinga á skráðum gististöðum um rúm 5% á sama tíma og ferðafólki til landsins um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 3,5%.

Nýjustu gögn um veltu virðisaukaskattskýrslum í einkennandi greinum ferðaþjónustu ná yfir mars-apríl. Samkvæmt þeim var velta í einkennandi greinum ferðaþjónustu tæpir 30 milljarðar króna á tímabilinu og stóð nánast í stað að raunvirði.