Marel tilkynnti í gær um fækkun starfsmanna um 5% á heimsvísu til að lækka kostnað þar sem rekstrarframlegð er undir væntingum. Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir félagið að fækkunin nái þvert á tekju- og stoðsvið félagsins og til allra starfsstöðva þess – sem eru fleiri en 30 víða um heim - til að aðgerðin valdi sem minnstri truflun í eðlilegri starfsemi og áframhaldandi háu þjónustustigi við viðskiptavini.

Í aðgerðunum felist ekki aðeins uppsagnir, heldur verður leitast eftir að ná fram sem mestri hagræðingu í gegnum eðlilega starfsmannaveltu.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins mun umfang uppsagna á Íslandi ekki vera slíkt að það nái hópuppsagnarviðmiðum Vinnumálastofnunar, sem miða við 30 starfsmenn hjá stórum fyrirtækjum.

Starfsmenn Marels voru 6.645, í ársverkum talsins, á síðasta ári, þar af 695 á Íslandi samkvæmt síðasta ársreikningi.

Í tilkynningu Marels í gær kom fram að félagið áætli að þessar breytingar muni skila sér í lækkun á kostnaðargrunni sem nemur 20 milljónum evra, eða um 2,8 milljörðum, á ársgrundvelli en einskiptiskostnaður nemur um 10 milljónum evra.

Marel greindi einnig frá því að samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir annan ársfjórðung jukust tekjur og pantanir um 21%-27% á milli ára, m.a. vegna áhrifa kaupanna á Wenger. EBIT framlegð félagsins á öðrum ársfjórðungi var þó undir væntingum og nam 6,3% samanborið við 11,8% á öðrum fjórðungi 2021.

„Í ljósi áframhaldandi áskorana tengdum aðfangakeðju og hárrar verðbólgu sem leiddi til hægari tekjuvaxtar en vænt var, mun Marel grípa til aðgerða þegar í stað til að bæta rekstrarafkomu og styðja við fjárhagsleg markmið sín fyrir árslok 2023.“