Sjóvá var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanns járnblendiverksmiðju Elkem tæplega 22 milljónir króna, auk skaðabótavaxta frá 2012 og dráttarvaxta frá 2018, vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi sínu. Þá fékk starfsmaðurinn 1,5 milljón króna í miskabætur.

Umræddur starfsmaður hóf störf hjá Elkem í júní 2007. Frá árinu 2008 starfaði hann sem tappari við ofn númer eitt alveg þar til í september 2012. Þá var hann greindur með Wegeners's granulomatosis (WG), bólgusjúkdóm sem leggst á smáæðar líkamans. Elkem var með tryggingu hjá Sjóvá og óumdeilt var að hún náði einnig til atvinnusjúkdóma.

Í álitsgerð lækna, sem aflað var vegna veikinda mannsins og tveggja annarra starfa, kom fram að útsetning fyrir kísilryki jyki líkurnar á því að fólk gæti þróað með sér sjúkdóminn. Dómkvaddir matsmenn, einnig læknar, sögðu að það væri mjög líklegt að útsetning fyrir kísilryki og kísilsýru hefði verði orsök sjúkdómanna. Varanlegur miski var metinn 35% og varanleg örorka 30%.

Í málinu lá einnig fyrir niðurstöður mengunarmælinga Vinnueftirlitsins en þar kom fram að mengun í verksmiðjunni hefði oft verið yfir mörkum reglugerða. Loftræsikerfi hússins hafi ekki haft undan við að koma menguðu lofti úr húsinu. Rykgrímur hafi verið til staðar handa starfsfólki en þær ekki veitt fullnægjandi vörn.

Dómurinn skipaður efnaverkfræðingi og lækni

Sjóvá hafnaði bótaskyldu í málinu og fór fram á yfirmat. Þar kom fram að afsogskerfi hússins hefði verið vandamál. Vanmat á þeim vanda hefði leitt til skorts á aðgerðaáætlun, starfsumhverfi í verksmiðjunni hafi verið heilsuspillandi vegna hita, óþrifnaðar og mengunar. Starfsumhverfið hefði orðið þess valdandi að maðurinn þróaði sjúkdóminn með sér.

Krafa málsins var studd þeim rökum að Elkem hefði brugðist skyldum sínum til að tryggja rétt vinnuumhverfi og að fullnægjandi öryggisbúnaður hefði ekki verið til staðar. Sjóvá krafðist á móti sýknu á þeim grunni að orsakatengsl milli vinnuaðstæðna og sjúkdómsins hafi ekki verið til staðar. Félagið hefði enn fremur ekki sýnt af sér saknæma háttsemi heldur þvert á móti lagst í aðgerðir til að tryggja aðbúnað starfsfólks.

Mikill fjöldi gagna og skýrsla lá fyrir í málinu. Þær sýndu að árið 2008 hefði mengun verið yfir mörkum en seinna meir hefði ástandið skánað. Þó þannig að eigi var tryggt að alltaf væru aðstæður eins og best væru á kosið. Í vitnaskýrslu fyrrverandi forstjóra kom fram að reglulega hefði verið kvartað undan loftgæðum og að mögulega hefði átt að bregðast hraðar við. Að mati dómsins, sem var fjölskipaður, skipaður dómara, efnaverkfræðingi og sérfræðingi í lungnalækningnum, þótti sannað að loftgæði hefðu ítrekað ekki verið í samræmi við það sem lög og reglur áskilja.

Í vitnaskýrslum fyrrverandi starfsmanna kom fram að loftgæði hefðu oft verið slæm. Í sumum tilfellum hefði rykið verið svo mikið að fólk hefði varla séð sínar eigin hendur. Þegar kom að notkun hlífðarbúnaðar var það niðurstaða dómsins að ekki hefði verið skylda að brúka þar til gerðar grímur fyrr en í desember 2011. Vissulega hefði verið hvatt til þess fyrr en það var ekki skylda fyrr en þá. Þá voru þær grímur sem brúkaðar voru þess eðlis að þær fylltust hratt og oft hefði starfsfólk þurft að lyfta þeim til að ná andanum. Þá um leið hefðu menn andað að sér ryki í staðinn.

Stórkostlegt skeytingarleysi Elkem

Að mati dómsins var ekkert sem benti til annars en að vinnuaðstæður í verksmiðjunni hefðu stuðlað að vanheilsu mannsins. Umfang tjónsins þótti sannað samkvæmt matsgerðum og var fallist á stefnufjárhæð mannsins. Hann gerði einnig kröfu um þrjár milljónir króna í miskabætur.

„Eins og áður segir er viðurkennt í greinargerð stefnda að mengun á einstaka starfsstöðvum í verksmiðju [Elkem] sé óhjákvæmilegur þáttur í starfseminni og ekki sé unnt að koma í veg fyrir að þar sé unnið með efni sem geti verið heilsuspillandi eða að slík efni geti orðið til við framleiðslu. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þess hversu mikið skeytingarleysi [Elkem] sýndi af sér, eins og þegar er rakið, telst gáleysi hans stórkostlegt,“ sagði í niðurstöðu dómsins. Af þeim sökum þótti heimilt að dæma miskabætur sem voru hæfilega ákveðnar 1.500 þúsund krónur.

Allur málskostnaður mannsins, 3,1 milljón króna, greiddist úr ríkissjóði þar sem hann naut gjafsóknar. Þá var Sjóvá dæmt til að greiða 4,8 milljónir króna í málskostnað til ríkissjóðs.

Leiðrétt 20.59 Í upphaflegri fyrirsögn sagði að starfsmaðurinn fyrrverandi fengi bætur frá Elkem en hið rétt er að hann fær þær úr starfsábyrgðartryggingu félagsins hjá Sjóva. Fyrirsögn hefur verið leiðrétt í samræmi við það.

Sjóvá var með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í dag dæmt til að greiða fyrrverandi starfsmanns járnblendiverksmiðju Elkem tæplega 22 milljónir króna, auk skaðabótavaxta frá 2012 og dráttarvaxta frá 2018, vegna tjóns sem hann varð fyrir í starfi sínu. Þá fékk starfsmaðurinn 1,5 milljón króna í miskabætur.

Umræddur starfsmaður hóf störf hjá Elkem í júní 2007. Frá árinu 2008 starfaði hann sem tappari við ofn númer eitt alveg þar til í september 2012. Þá var hann greindur með Wegeners's granulomatosis (WG), bólgusjúkdóm sem leggst á smáæðar líkamans. Elkem var með tryggingu hjá Sjóvá og óumdeilt var að hún náði einnig til atvinnusjúkdóma.

Í álitsgerð lækna, sem aflað var vegna veikinda mannsins og tveggja annarra starfa, kom fram að útsetning fyrir kísilryki jyki líkurnar á því að fólk gæti þróað með sér sjúkdóminn. Dómkvaddir matsmenn, einnig læknar, sögðu að það væri mjög líklegt að útsetning fyrir kísilryki og kísilsýru hefði verði orsök sjúkdómanna. Varanlegur miski var metinn 35% og varanleg örorka 30%.

Í málinu lá einnig fyrir niðurstöður mengunarmælinga Vinnueftirlitsins en þar kom fram að mengun í verksmiðjunni hefði oft verið yfir mörkum reglugerða. Loftræsikerfi hússins hafi ekki haft undan við að koma menguðu lofti úr húsinu. Rykgrímur hafi verið til staðar handa starfsfólki en þær ekki veitt fullnægjandi vörn.

Dómurinn skipaður efnaverkfræðingi og lækni

Sjóvá hafnaði bótaskyldu í málinu og fór fram á yfirmat. Þar kom fram að afsogskerfi hússins hefði verið vandamál. Vanmat á þeim vanda hefði leitt til skorts á aðgerðaáætlun, starfsumhverfi í verksmiðjunni hafi verið heilsuspillandi vegna hita, óþrifnaðar og mengunar. Starfsumhverfið hefði orðið þess valdandi að maðurinn þróaði sjúkdóminn með sér.

Krafa málsins var studd þeim rökum að Elkem hefði brugðist skyldum sínum til að tryggja rétt vinnuumhverfi og að fullnægjandi öryggisbúnaður hefði ekki verið til staðar. Sjóvá krafðist á móti sýknu á þeim grunni að orsakatengsl milli vinnuaðstæðna og sjúkdómsins hafi ekki verið til staðar. Félagið hefði enn fremur ekki sýnt af sér saknæma háttsemi heldur þvert á móti lagst í aðgerðir til að tryggja aðbúnað starfsfólks.

Mikill fjöldi gagna og skýrsla lá fyrir í málinu. Þær sýndu að árið 2008 hefði mengun verið yfir mörkum en seinna meir hefði ástandið skánað. Þó þannig að eigi var tryggt að alltaf væru aðstæður eins og best væru á kosið. Í vitnaskýrslu fyrrverandi forstjóra kom fram að reglulega hefði verið kvartað undan loftgæðum og að mögulega hefði átt að bregðast hraðar við. Að mati dómsins, sem var fjölskipaður, skipaður dómara, efnaverkfræðingi og sérfræðingi í lungnalækningnum, þótti sannað að loftgæði hefðu ítrekað ekki verið í samræmi við það sem lög og reglur áskilja.

Í vitnaskýrslum fyrrverandi starfsmanna kom fram að loftgæði hefðu oft verið slæm. Í sumum tilfellum hefði rykið verið svo mikið að fólk hefði varla séð sínar eigin hendur. Þegar kom að notkun hlífðarbúnaðar var það niðurstaða dómsins að ekki hefði verið skylda að brúka þar til gerðar grímur fyrr en í desember 2011. Vissulega hefði verið hvatt til þess fyrr en það var ekki skylda fyrr en þá. Þá voru þær grímur sem brúkaðar voru þess eðlis að þær fylltust hratt og oft hefði starfsfólk þurft að lyfta þeim til að ná andanum. Þá um leið hefðu menn andað að sér ryki í staðinn.

Stórkostlegt skeytingarleysi Elkem

Að mati dómsins var ekkert sem benti til annars en að vinnuaðstæður í verksmiðjunni hefðu stuðlað að vanheilsu mannsins. Umfang tjónsins þótti sannað samkvæmt matsgerðum og var fallist á stefnufjárhæð mannsins. Hann gerði einnig kröfu um þrjár milljónir króna í miskabætur.

„Eins og áður segir er viðurkennt í greinargerð stefnda að mengun á einstaka starfsstöðvum í verksmiðju [Elkem] sé óhjákvæmilegur þáttur í starfseminni og ekki sé unnt að koma í veg fyrir að þar sé unnið með efni sem geti verið heilsuspillandi eða að slík efni geti orðið til við framleiðslu. Að þessu virtu og að teknu tilliti til þess hversu mikið skeytingarleysi [Elkem] sýndi af sér, eins og þegar er rakið, telst gáleysi hans stórkostlegt,“ sagði í niðurstöðu dómsins. Af þeim sökum þótti heimilt að dæma miskabætur sem voru hæfilega ákveðnar 1.500 þúsund krónur.

Allur málskostnaður mannsins, 3,1 milljón króna, greiddist úr ríkissjóði þar sem hann naut gjafsóknar. Þá var Sjóvá dæmt til að greiða 4,8 milljónir króna í málskostnað til ríkissjóðs.

Leiðrétt 20.59 Í upphaflegri fyrirsögn sagði að starfsmaðurinn fyrrverandi fengi bætur frá Elkem en hið rétt er að hann fær þær úr starfsábyrgðartryggingu félagsins hjá Sjóva. Fyrirsögn hefur verið leiðrétt í samræmi við það.