Sigurður Ólafsson, forstjóri Mallinckrodt, skrifaði í byrjun febrúar undir nýjan starfssamning hjá bandaríska lyfjafyrirtækinu sem lauk umfangsmikilli fjárhagslegri endurskipulagningu undir lok síðasta árs.

Í kauphallartilkynningu Mallinckrodt kemur fram að Sigurður hafði nýlega tilkynnt stjórn félagsins formlega um að hann hygðist segja upp störfum en hann hefur nú samþykkt að stýra félaginu áfram.

Sigurður, sem tók við sem forstjóri félagsins í júní 2022, fékk um 6,6 milljónir dala, eða yfir 900 milljónir króna, í sérstakan ráðningarbónus samkvæmt skilmálum hins nýja samnings örfáum dögum eftir að hann var undirritaður (e. Sign-On Bonus). Greiðslan samvarar þeirri fjárhæð sem hann hefði fengið í starfslokagreiðslu hefði hann kosið að láta af störfum.

Auk bónusgreiðslunnar á Sigurður möguleika á að vinna sér inn umtalsverð verðmæti í gegnum bæði kaupréttarkerfi og kaupaukakerfi í tengslum við mögulega eignasölu. Samkvæmt kerfunum gæti Sigurður fengið allt að 246 þúsund hluti, eða um 1,3% eignarhlut, í Mallinckrodt nái félagið ákveðnum rekstrarviðmiðum.

Sigurður heldur sömu grunnlaunum upp á 1,1 milljón dala, eða um 150 milljónir króna, á ári ásamt árangurstengdum kaupauka sem miðað er við að nemi 135% af grunnlaunum og getur hæst numið 250% af grunnlaunum.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um fór Mallinckrodt í greiðsluskjól (e. Chapter 11 bankruptcy) í lok síðasta sumars og samdi við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu.

Samkomulagið fól m.a. í sér að skuldir félagsins lækkuðu verulega, kröfuhafar tóku við eignarhaldi lyfjafyrirtækisins og sáttagreiðsla vegna ópíóðafaraldursins var lækkuð um einn milljarð dala. Félagið yfirgaf greiðsluskjólið í nóvember.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út 28. febrúar 2024.