Úrskurður í ágreiningi aðila í máli Frigusar II gegn Lindarhvoli ehf. og íslenska ríkinu lá fyrir fyrr í vikunni. Ágreiningurinn sneri að því hvort þeir Þór Hauksson fjárfestir, Valtýr Sigurðsson lögmaður og Sigurður Þórðarson fyrrverandi settur ríkisendurskoðandi í málefnum Lindarhvols, sem Frigus vill að gefi skýslu sem vitni, uppfylli skilyrði sem slíkir. Að auki gerði Frigus II kröfu um að vitnið Steinar Þór Guðgeirsson, lögmaður Lindarhvols og ríkisins, yrði látinn gefa skýrslu sem vitni áður en aðilaskýrslur í málinu færu fram, ella fengi hann ekki að vera viðstaddur þegar aðilar málsins gæfu skýrslur.
Niðurstaðan varð sú að Frigusi er heimilt að að boða þá Þór Hauksson og Valtý Sigurðsson sem vitni en ekki Sigurð Þórðarson. Þá staðfesti Sigurður Valtýsson, forsvarsmaður Frigusar, í samtali við Viðskiptablaðið að félagið hyggðist kæra til Landsréttar þá niðurstöðu dómara að Sigurði Þórðarsyni væri ekki heimilt að bera vitni í málinu.
Sigurður fær ekki að gefa skýrslu
Ríkið lagðist gegn því að Sigurður Þórðarson bæri vitni í málinu, enda hafi hann ekki komið að söluferlinu sjálfu heldur að rannsókn sölunnar. Að auki benti ríkið á að Sigurði væri óheimilt að gefa skýrslu sem vitni um atriði sem hann hafi komist að í opinberu starfi en eigi að fara leynt.
Frigus áréttaði að fyrir lægi að Sigurður Þórðarson væri fús til að koma fyrir dóminn og gefa skýrslu sem vitni. Í því samhengi var vísað til sannleiksreglunnar og þess að í lýðræðisríki geti ekki gilt fortakslaust leynd um efnið sem upplýsa þurfi í málinu. „Alls kostar sé ótímabært að synja Sigurði Þórðarsyni sem vitni af þessum sökum, en rétturinn til þess að fá fram sannleika gangi hér framar hagsmunum um leyndarhyggju,“ segir í úrskurðinum.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út í dag.