Viðskiptablaðið greindi í vikunni frá kaupum fasteignafélagsins Bergeyjar á fasteigninni að Snorrabraut 37, sem er betur þekkt sem Austurbæjarbíó.
Húsið er með þekktari menningarbyggingum Reykjavíkur, en það var vígt sem kvikmyndahús árið 1947. Frá þeim tíma hefur það gegnt margvíslegu hlutverki – sem bíó, tónleikasalur, leikhús og fjölbreytt viðburðarrými.
Húsið var hannað af Herði Bjarnasyni, Gunnlaugi Pálssyni og Ágústi Steingrímssyni, og byggt af athafnamönnum í Reykjavík fyrir tilstuðlan Tónlistarfélagsins í Reykjavík. Byggingin er í íslenskum fúnkísstíl og var sérstaklega hönnuð með tilliti til tónlistarflutnings og hljómburðar. Stórt svið hússins rúmaði allt að 40 manna hljómsveit, og þar tróð meðal annars breska hljómsveitin The Kinks upp árið 1965.
Á efri hæð hússins var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn á árunum 1955–1975, en síðar opnaði kvikmyndahúsið Bíóborgin, sem var fyrsta bíó landsins með THX hljóðkerfi.
„Það er mikill heiður að taka við þessu fallega húsi sem Austurbæjarbíó er. Þarna er eitt stærsta menningarhús miðborgarinnar og við sjáum mörg tækifæri til að færa enn meira líf í bygginguna með nýjum rekstraraðilum. Við sjáum einnig fyrir okkur að gefa húsinu andlitslyftingu og færa útlit þess nær upprunalegu útliti á næstu misserum, “ segir Magnús Berg Magnússon, stjórnarformaður Bergeyjar.
Með 11 þúsund fermetra safn
Bergey er fasteignafélag sem Magnús Berg Magnússon, fyrrum forstjóri danska hönnunarfyrirtækisins Norr11, Torfi G Yngvason, einn stofnenda og fyrrum forstjóri Arctic Adventures, og Jónas Pétur Ólason fara fyrir.
Í kjölfar kaupanna á Austurbæjarbíó telur fasteignasafn félagsins ellefu fasteignir á höfuðborgarsvæðinu sem samtals eru um 11 þúsund fermetrar.
Eignasafn félagsins samanstendur af nýlegu verslunar- og veitingahúsnæði, hótelum, húsnæði fyrir heilbrigðisstarfssemi og iðnaðarhúsnæði. Bergey hefur meðal annars horft til þess að finna eldri byggingar, gera þær upp og jafnvel gefa þeim nýjan tilgang.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaði vikunnar.