Sjóvá hagnaðist um 1,4 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi samanborið við 1,7 milljarða hagnað á sama tímabili í fyrra. Rekstrartekjur á fjórðungnum jukust um 6,9% milli ára og námu 8,7 milljörðum.
Afkoma félagsins af vátryggingasamningum á þriðja fjórðungi jókst um 47,6% frá sama tímabili í fyrra og nam 877 milljónum króna. Afkoma fjárfestinga fyrir fjármagnsliði var 1.252 milljónir á fjórðungnum, samanborið við 1.504 milljónir á þriðja fjórðungi 2023.
„Markaðir voru heilt yfir góðir á fjórðungnum með lækkandi verðbólgu og væntingum um að vaxtalækkunarferli gæti hafist á síðasta fjórðungi ársins, sem varð raunin,“ segir í uppgjörstilkynningu Sjóvá.
Félagið segir helstu tíðindin á fjórðungnum vera breytingar safns óskráðra hlutabréfa. Þar munaði mestu um að eignarhlutur Sjóvá í hátæknifyrirtækinu Controlant var færður niður um 417 milljónir króna og var bókfærður á 333 milljónir í lok september.
Verðmatið byggir á að gengi hlutabréfa Controlant sé 40 krónur á hlut en til samanburðar miðaði Sjóvá við gengið 90 krónur í uppgjöri sínu fyrir annan ársfjórðung.
Controlant tilkynnti í lok ágúst um að félagið hefði ákveðið að fækka starfsfólki um 150 eða um meira en þriðjung, ekki síst vegna uppfærðrar tekjuspár. Fyrr í þessum mánuði greindi Controlant hluthöfum sínum frá því að útlit sé fyrir tæplega 60% tekjusamdrætti í ár.
Meirihluti hluthafa félagsins samþykktu tillögu stjórnar á hluthafafundi á fimmtudaginn um að heimila félaginu að fara í aðra hlutafjárhækkun, að því er Innherji greindi frá.
Meðal annarra helstu breytinga í óskráða eignasafni Sjóvá er að í Loðnuvinnslunni var færður upp um 178 milljónir og nemur nú 586 milljónum. Þá var eignarhlutur í Origo færður upp um 157 milljónir og stendur nú í 547 milljónum.
Ávöxtun skráðra hlutabréfa Sjóvá var 6,1%, ríkisskuldabréfa 1,3%, annarra skuldabréfa 1,4% og safnsins alls 2,3%. Í lok þriðja fjórðungs nam stærð eignasafns Sjóvá 59,6 milljörðum króna.