Fjártæknisprotinn Mojoflower hyggst færa hluthafaskrá, tilkynningar og fleira sem fyrirtæki þurfa að halda utan um á bálkakeðjuna, og sjá um að skila öllum gögnum til Skattsins. Gögnin verða þannig færð á raunverulega tölvutækt form, öllum aðgengileg á einfaldan hátt, og munu uppfærast í rauntíma.
Verkefnið á rætur sínar að rekja til skráningar raunverulegra eigenda hjá Skattinum. Ólafur Páll Torfason og félagar hans sem saman stofnuðu Mojoflower sáu fljótt að hægt væri að einfalda ferlið töluvert.
„Við áttuðum okkur á því að það væri hægt að leysa þarna ákveðið vandamál með nýrri tækni. Lausnin sem við erum að búa til er í grunninn eignaskráning á bálkakeðjum.”
Opnar á heilan heim fjártæknilausna
Þjónusta Mojoflower gengur þannig fyrir sig að viðskiptavinur er skráður inn, sett er upp hluthafafyrirkomulag og hlutdeildarskírteinum útdeilt á hluthafa á bálkakeðjunni. Í kjölfarið er svo hægt að eiga í samskiptum í tengslum við það sem skiptir fyrirtækið máli beint í gegn um kerfið sjálft, sem þannig verður einskonar heimasvæði að sögn Ólafs.
Þegar búið er að stofna fyrirtæki verður til ákveðið auðkenni tengt því, sem þá er hægt að byrja að nota til að taka við greiðslum, senda frá sér samninga til undirritunar og margt fleira. Í kjölfarið er síðan hægt að tengja inn og bæta við alls kyns þjónustu frá þriðja aðila sem í boði er í gegn um snjallsamninga bálkakeðjunnar.
„Við skráum eignirnar og bætum svo við samskiptatengingu þarna ofan á. Í gegn um það getur notandinn svo tengst öðrum þjónustum,“ segir hann og líkir kerfinu við snjallforritaverslunina App Store sem finna má á öllum snjalltækjum Apple.
Kerfi Mojoflower er byggt og hýst á bálkakeðjunni Stellar, sem einnig veitti framtakinu styrk. Innan ársins segir Óli að Stellar muni geta átt í samskiptum við Ethereum bálkakeðjuna, sem er vinsælasta rafmynt á eftir Bitcoin og undirstaða flestra snjallsamninga heimsins í dag.
Þegar sú tenging sé komin verði því skráning og þjónusta Mojoflower nokkurskonar miðlægur punktur viðskiptavina þess til að nálgast alla fjártækniþjónustu sem í boði verður á bálkakeðjum, sem Mojoflower sér svo um að halda utan um.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .