Apple hyggst færa alla samsetningu á iPhone símum sem verða seldir í Bandaríkjunum til Indlands strax á næsta ári, samkvæmt heimildarmönnum Financial Times, en tollastríð Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hefur neytt netrisann til að snúa sér frá Kína.
Þessi ráðstöfun er liður í stefnu Apple að ná fram meiri áhættudreifingu í virðiskeðju sinni. Aðgerðin er þó talin ganga lengra og hraðar en margir fjárfestar áttu von á.
Apple stefnir nú á að setja saman alla iPhone síma sem seldir eru í Bandaríkjunum – sem nema yfir 60 milljónum talsins á ári hverju – í Indlandi fyrir árslok 2026. Það myndi samsvara að tvöfalda framleiðslu félagsins í Indlandi.
Framleiðsla á iPhone símum hefur að stórum hluta farið fram í Kína á undanförnum tveimur árum. Apple hefur átt í nánum viðskiptasambandi við kínverska fyrirtæki á borð við Foxconn í Kína sem hafa fengið yfir sig umfangsmestu tolla Bandaríkjanna.