Sjóvá hefur fært virði óskráðra eigna niður um 300 milljónir króna í drögum að uppgjöri á fjárfestingarstarfsemi tryggingafélagsins. Í tilkynningu sem Sjóvá sendi til Kauphallarinnar segir að niðurfærslan skýrist að mestu leyti af breytingu á gengi hlutabréfa í Controlant.
Tryggingafélögin Sjóvá og VÍS komu bæði inn í hluthafahóp Controlant í hlutafjárútboði haustið 2020 en þau fjárfestu í félaginu fyrir 250 milljónir króna hvor um sig. Í fjárfestakynningu Sjóvá með ársuppgjöri 2021 kom fram að eignarhlutur félagsins í Controlant hefði verið metinn á einn milljarð króna í lok síðasta árs, sem er um fjórfalt hærra en í árslok 2020.
Ekki er tekið fram í tilkynningu Sjóvá hvað eignarhlutur tryggingafélagsins í Controlant var metinn á í lok fyrsta fjórðungs en miðað við tilkynninguna má ætla að hluturinn hafi verið færður niður um ríflega fjórðung.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að töluvert af viðskiptum með hlutabréf Controlant hafi farið fram í kringum gengið 10 þúsund krónur á hlut. Miðað við það nemur markaðsvirði Controlant um 60 milljörðum króna.
Viðskiptablaðið sagði frá því í október að VÍS hefði bókfært hlut sinn í Controlant í lok þriðja fjórðungs út frá viðskiptum með bréf Controlant á genginu 12.500 krónur á hlut. Innherji greindi svo frá því í desember að hlutabréfaverðið hefði verið komið upp í 15 þúsund krónur og markaðsvirði fyrirtækisins því metið á ríflega 90 milljarða í lok síðasta árs.
Sjá einnig: Ótrúlegur uppgangur Controlant
Eignarhluturinn í Controlant var verðmætasta eignin af óskráðum bréfum Sjóvá í lok síðasta árs. Tryggingafélagið á einnig hluti í Ölgerðinni, Kereis, og Loðnuvinnsulunni ásamt ýmsum fjárfestingasjóðum.
Í tilkynningu Sjóvá segir að um 1,6% ávöxtun hafi verið af fjárfestingareignum í stýringu og fjárfestingartekjur af eignum í stýringu námu um 790 milljónum á fyrsta ársfjórðungi 2022.