Félagið Sio færði upp 2,9% eignarhlut sinn í Controlant úr ríflega 600 milljónum í 2,6 milljarða króna á síðasta ári. Sio, sem er áttundi stærsti hluthafi Controlant, er í 66,7% eigu Stálskipa, fjárfestingarfélags Guðrúnar H. Lárusdóttur og fjölskyldu, og 33,3% eigu Orbis invest, eignarhaldsfélags Magnús Magnússonar.

Í ársreikningi Sio segir að gangvirði eignarhlutarins miði við 15 þúsund króna gengi í skráðum viðskiptum með hlutabréf Controlant undir lok síðasta árs. Gangvirðisbreytingin var færð á eigið fé félagsins.

Sio hagnaðist um 613 milljónir á síðasta ári samanborið við 71 milljónar tap árið 2020. Afkoman skýrist einkum af fasteignaviðskiptum en félagið seldi íbúðir fyrir 2,9 milljarða á síðasta ári. Eignir Sio voru bókfærðar á 6,8 milljarða í lok síðasta árs og eigið fé var um 3,1 milljarður.

Árið 2017 keypti dótturfélag Sio fjögur fjölbýlishús í byggingu við Mosagötu í Garðabæ en allar íbúðir í þeim höfðu verið afhentar og seldar í árslok 2021. Þá vinnur dótturfélagið D18 að endurbyggingu fjölbýlishúss að Dunhaga 18-20 sem stefnt var að yrði tilbúið til sölu í byrjun sumars. Þriðja dótturfélagið Þjónustumiðstöðin Bitra ehf. vinnur að þróun og skipulagningu gisti- og þjónustumiðstöðvar á landsvæði úr jörðinni Bitru í Flóahreppi.

Gengi Controlant hækkað aftur

Hlutabréfaverð Controlant margfaldaðist á síðasta ári eftir gífurlegan vöxt Controlant í faraldrinum, ekki síst vegna samnings við Pfizer um eftirlit með dreifingu Covid-bóluefna. Markaðsvirði Controlant var yfir 90 milljarða króna í lok síðasta árs.

Gengið Controlant lækkaði þó fyrr í ár og var í kringum 10 þúsund krónur í byrjun apríl síðastliðnum líkt og Viðskiptablaðið greindi frá. Ætla má þó að markaðsgengi Controlant hafi verið á bilinu 13-14 þúsund krónur um síðustu mánaðamót ef miðað er við bókfært verð Sjóvá í lok júní.

Sjóvá, sem fjárfesti í Controlant fyrir 250 milljónir haustið 2020, bókfærði eignarhlut sinn í fyrirtækinu á einn milljarð króna í lok síðasta árs. Vátryggingafélagið færði eignarhlutinn niður í 667 milljónir í lok mars síðastliðnum. Sjóvá færði hlutinn aftur upp á öðrum ársfjórðungi og var hann metinn á 900 milljónir í lok síðasta mánaðar.

Bókfært verð eignarhlutar Sjóvár í Controlant í m.kr.

31.12.2021 31.3.2022 30.6.2022
Controlant 1.000 667 900