Flug­félagið Play flutti 99.393 farþega í nóvember­mánuði sem er um 7% færri farþegar en í nóvember í fyrra þegar flug­félagið flutti 107.236 farþega.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu Play var um 17% munur á fram­boði milli ára vegna ákvörðunar flug­félagsins að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami til að aðlaga fram­boðið eftir ár­stíðar­bundnum sveiflum.

Á móti kemur að sætanýting Play var mun betri milli ára er sætanýting flug­félagsins var 82,4% í nóvember saman­borið við sætanýtingu upp á 74,5% í nóvember í fyrra.

„Sætanýtingin í liðnum nóvember var sú hæsta sem PLAY hefur náð í nóvember­mánuði frá því félagið hóf sig til flugs fyrir rúmum þremur árum.

Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í nóvember voru 29,6% að ferðast frá Ís­landi, 38,9% á leið til Ís­lands og 31,5% voru tengi­farþegar (VIA),“ segir í til­kynningu flug­félagsins.

Þrátt fyrir að fram­boð flug­félagsins drægist saman jókst fjöldi ís­lenskra farþega á milli ára en 29.400 Ís­lendingar flugu með Play í mánuðinum.

Mun það vera um 4,6% aukning á milli ára er 28.095 Ís­lendingar flugu með Play nóvember í fyrra.

Farþegar sem flugu til Ís­lands jukust einnig en 38.659 farþegar heimsóttu Ís­land með Play í nóvember, saman­borið við 35.059 farþega í nóvember í fyrra, sem er 10,2% aukning milli ára.

Stund­vísi PLAY í nóvember var 90,7%, saman­borið við 88,9% í nóvember í fyrra.

„Við sjáum enn jákvæð merki þeirrar ákvörðunar að leggja meiri áherslu á sólar­landaá­fangastaði í Suður-Evrópu og á móti draga úr áherslu á áfangastaði í Norður-Ameríku. Það er ánægju­legt að sjá 7% aukningu á milli ára í farþegum sem ferðast til og frá Ís­landi þrátt fyrir að hafa dregið úr fram­boði um 17%. Þetta endur­speglar vaxandi traust bæði inn­lendra og er­lendra ferða­manna til PLAY og má ætla að þeir átti sig á þeim góða val­kosti að fljúga í ungum Air­bus-flota með flug­félagi sem státar af öfunds­verðri stund­vísi, góðri þjónustu og selur flugið á hag­kvæmu verði,“ segir Einar Örn Ólafs­son, for­stjóri Play.

Sam­kvæmt kaup­hallar­til­kynningu félagsins lagðist Play í veg­lega her­ferð til að ná til neyt­enda í Norður-Ameríku, Evrópu og á Ís­landi á markaðs­dögunum í kringum svartan föstu­dag. Árangurinn af þeirri her­ferð var 10% aukning í sölu á milli ára en sam­kvæmt flug­félaginu er bókunar­staðan fyrir 2024 og inn í næsta ár því góð.

Nóvember var þriðji mánuðurinn sem fram­farir hafa orðið á milli ára í eininga­tekjum eftir krefjandi sumar og hefur PLAY áður greint frá því að horfurnar fyrir eininga­tekjur inn í desember og árið 2025 séu jákvæðar.

„Nú erum við stödd í að­draganda jóla­vertíðarinnar þar sem við ætlum okkur að veita farþegum okkar, sem eru ýmist á leið heim í faðm ást­vina eða að halda á vit ævintýra, frábæra þjónustu. Við hlökkum mjög til þessa stóra verk­efnis og ég sjálfur er afar spenntur fyrir nýju ári þar sem PLAY mun sannar­lega sýna úr hverju það er gert,“ segir Einar Örn.