Flugfélagið Play flutti 99.393 farþega í nóvembermánuði sem er um 7% færri farþegar en í nóvember í fyrra þegar flugfélagið flutti 107.236 farþega.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu Play var um 17% munur á framboði milli ára vegna ákvörðunar flugfélagsins að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami til að aðlaga framboðið eftir árstíðarbundnum sveiflum.
Á móti kemur að sætanýting Play var mun betri milli ára er sætanýting flugfélagsins var 82,4% í nóvember samanborið við sætanýtingu upp á 74,5% í nóvember í fyrra.
„Sætanýtingin í liðnum nóvember var sú hæsta sem PLAY hefur náð í nóvembermánuði frá því félagið hóf sig til flugs fyrir rúmum þremur árum.
Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í nóvember voru 29,6% að ferðast frá Íslandi, 38,9% á leið til Íslands og 31,5% voru tengifarþegar (VIA),“ segir í tilkynningu flugfélagsins.
Þrátt fyrir að framboð flugfélagsins drægist saman jókst fjöldi íslenskra farþega á milli ára en 29.400 Íslendingar flugu með Play í mánuðinum.
Mun það vera um 4,6% aukning á milli ára er 28.095 Íslendingar flugu með Play nóvember í fyrra.
Farþegar sem flugu til Íslands jukust einnig en 38.659 farþegar heimsóttu Ísland með Play í nóvember, samanborið við 35.059 farþega í nóvember í fyrra, sem er 10,2% aukning milli ára.
Stundvísi PLAY í nóvember var 90,7%, samanborið við 88,9% í nóvember í fyrra.
„Við sjáum enn jákvæð merki þeirrar ákvörðunar að leggja meiri áherslu á sólarlandaáfangastaði í Suður-Evrópu og á móti draga úr áherslu á áfangastaði í Norður-Ameríku. Það er ánægjulegt að sjá 7% aukningu á milli ára í farþegum sem ferðast til og frá Íslandi þrátt fyrir að hafa dregið úr framboði um 17%. Þetta endurspeglar vaxandi traust bæði innlendra og erlendra ferðamanna til PLAY og má ætla að þeir átti sig á þeim góða valkosti að fljúga í ungum Airbus-flota með flugfélagi sem státar af öfundsverðri stundvísi, góðri þjónustu og selur flugið á hagkvæmu verði,“ segir Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play.
Samkvæmt kauphallartilkynningu félagsins lagðist Play í veglega herferð til að ná til neytenda í Norður-Ameríku, Evrópu og á Íslandi á markaðsdögunum í kringum svartan föstudag. Árangurinn af þeirri herferð var 10% aukning í sölu á milli ára en samkvæmt flugfélaginu er bókunarstaðan fyrir 2024 og inn í næsta ár því góð.
Nóvember var þriðji mánuðurinn sem framfarir hafa orðið á milli ára í einingatekjum eftir krefjandi sumar og hefur PLAY áður greint frá því að horfurnar fyrir einingatekjur inn í desember og árið 2025 séu jákvæðar.
„Nú erum við stödd í aðdraganda jólavertíðarinnar þar sem við ætlum okkur að veita farþegum okkar, sem eru ýmist á leið heim í faðm ástvina eða að halda á vit ævintýra, frábæra þjónustu. Við hlökkum mjög til þessa stóra verkefnis og ég sjálfur er afar spenntur fyrir nýju ári þar sem PLAY mun sannarlega sýna úr hverju það er gert,“ segir Einar Örn.