Hluta­bréfa­verð skó­fram­leiðandans Dr. Martens tók væna dýfu í Kaup­höllinni í Lundúnum í morgun eftir að greint var frá því að hópur kjöl­festu­fjár­festa hefði losað um 70 milljón hluti á gengi sem var 10% undir markaðs­virði.

Sam­kvæmt MarketWatch sá Gold­man Sachs um söluna og var gengið í við­skiptunum 57,85 penní.

Hluta­bréf Dr. Martens hafa lækkað um 17% í við­skiptum dagsins og hefur gengið ekki verið lægra frá því að fé­lagið fór á markað með 3,7 milljarða punda frumút­boði í janúar 2021.

Þegar þetta er skrifað stendur gengið í 53,24 penn­ís.

Stærsti hluthafinn ekki í hópnum

Sam­kvæmt MarketWatch hefur ekki verið greint frá hverjir voru á sölu­hliðinni í við­skiptum gær­dagsins en losað var um tæp­lega 14% hlut í fé­laginu á 9,96% af­slætti sé miðað við dagsloka­gengi fimmtu­dagsins.

Stærsti hlut­hafi Dr. Martens, IngreGrs­y, var ekki meðal þeirra sem seldu í fé­laginu í gær sam­kvæmt MarketWatch. IngreGrs­y eignaðist um 38,4% hlut í Dr. Martens í júní á þessu ári vegna endur­skipu­lagningar hjá Permira sem hefur átt í þýska skó­fram­leiðandanum frá árinu 2014.

Hluta­bréfa­verð Dr. Martens hefur lækkað um 64% síðast­liðna tólf mánuði en gengið tók síðast dýfu í nóvember í fyrra þegar fé­lagið birti fjórðu af­komu­við­vörunina í röð.