Fjárfestingabankinn Centerview Partners hefur lengi verið eitt af fáum fjármálafyrirtækjum á Wall Street sem hvorki hefur farið á markað né tekið við fjármagni frá utanaðkomandi aðilum.
Samkvæmt The Wall Street Journal gæti þetta þó verið að breytast.
Blair Effron, annar stofnenda Centerview, gaf til kynna í nýlegu viðtali að fyrirtækið væri orðið opnara fyrir því að kanna valkosti sína.
Valkostirnir sem Effron nefndi voru meðal annars að selja hluta í fyrirtækinu til utanaðkomandi fjárfesta eða fara á hlutabréfamarkað.
Samkvæmt heimildum WSJ hafa fjársterkir fjárfestar sýnt Centerview mikinn áhuga.
Centerview skilaði mettekjum árið 2024 en samhliða því eru hlutabréf helstu samkeppnisaðila félagsins, svo sem Evercore og PJT, í hæstu hæðum.
Tekjur Centerview námu 1,9 milljörðum bandaríkjadala í fyrra sem er hækkun úr 1,5 milljörðum dala árið áður. Samkvæmt WSJ hafa tekjur fjárfestingabankans hækkað á hverju ári frá stofnun árið 2006.
Miðað við starfsmannafjölda er fjárfestingabankinn að skila 3,5 milljónum dala í tekjur á móti hverjum starfsmanni sem setur bankann í sérflokk miðað við minni minni og meðalstóra fjárfestingabanka.
Centerview er þekkt fyrir reynslu sína í fjárfestingum í heilbrigðisgeiranum en félagið er einnig með sterka stöðu á neytendavörumarkaði. Um það bil 30% af tekjum fyrirtækisins koma í dag frá almennri ráðgjöf frekar en viðskiptum.
„Ég hef aldrei viljað hugsa um neitt tengt því að umbreyta hlutum í reiðufé fyrr en fyrirtækið væri nógu stórt og stöndugt, óháð ytri aðstæðum,“ sagði Effron frá höfuðstöðvum fyrirtækisins í Midtown Manhattan. „Ég er öruggur um að það sé ekki lengur áhyggjuefni.“
Samt vöruðu Effron og meðstofnandi hans, Robert Pruzan, við því að breytta viðhorfið þýddi ekki að fyrirtækið myndi gera samkomulag í bráð, sérstaklega í ljósi þess að reksturinn gengur vel eins og staðan er.
„Þröskuldurinn verður hár,“ segir Pruzan.
Effron sem er 62 ára, og Pruzan er 61 árs, stjórna fyrirtækinu sameiginlega. Vorið 2023 voru Eric Tokat, sérfræðingur í líftækniviðskiptum, og Tony Kim, sem hefur ráðlagt um mörg stærstu viðskipti fyrirtækisins, skipaðir sem meðstjórnendur.
Sú ákvörðun sýndi eftirfylgniáætlanir fyrirtækisins og lagði grunninn að breytingum fram undan.
Samkeppnisaðilar Centerview í fjárfestingabankaheiminum nutu góðs af markaðshækkun í fyrra, að hluta til vegna áherslu þeirra á ráðgjöf sem gerir þá að einföldu fjárfestingartæki fyrir væntanlega aukningu í viðskiptum.
Hlutabréf Perella hækkuðu um meira en 90% árið 2024, hlutabréf Evercore um meira en 60% og hlutabréf PJT um um það bil 55%.