Fjár­festinga­bankinn Centervi­ew Partners hefur lengi verið eitt af fáum fjár­mála­fyrir­tækjum á Wall Street sem hvorki hefur farið á markað né tekið við fjár­magni frá utan­aðkomandi aðilum.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal gæti þetta þó verið að breytast.

Blair Eff­ron, annar stofn­enda Centervi­ew, gaf til kynna í ný­legu viðtali að fyrir­tækið væri orðið opnara fyrir því að kanna val­kosti sína.

Val­kostirnir sem Eff­ron nefndi voru meðal annars að selja hluta í fyrir­tækinu til utan­aðkomandi fjár­festa eða fara á hluta­bréfa­markað.

Sam­kvæmt heimildum WSJ hafa fjár­sterkir fjár­festar sýnt Centervi­ew mikinn áhuga.

Centervi­ew skilaði met­tekjum árið 2024 en sam­hliða því eru hluta­bréf helstu sam­keppnisaðila félagsins, svo sem Evercor­e og PJT, í hæstu hæðum.

Tekjur Centervi­ew námu 1,9 milljörðum bandaríkja­dala í fyrra sem er hækkun úr 1,5 milljörðum dala árið áður. Sam­kvæmt WSJ hafa tekjur fjár­festinga­bankans hækkað á hverju ári frá stofnun árið 2006.

Miðað við starfs­manna­fjölda er fjár­festinga­bankinn að skila 3,5 milljónum dala í tekjur á móti hverjum starfs­manni sem setur bankann í sér­flokk miðað við minni minni og meðal­stóra fjár­festinga­banka.

Centervi­ew er þekkt fyrir reynslu sína í fjár­festingum í heil­brigðis­geiranum en félagið er einnig með sterka stöðu á neyt­enda­vöru­markaði. Um það bil 30% af tekjum fyrir­tækisins koma í dag frá al­mennri ráðgjöf frekar en við­skiptum.

„Ég hef aldrei viljað hugsa um neitt tengt því að um­breyta hlutum í reiðufé fyrr en fyrir­tækið væri nógu stórt og stöndugt, óháð ytri aðstæðum,“ sagði Eff­ron frá höfuðstöðvum fyrir­tækisins í Mid­town Man­hattan. „Ég er öruggur um að það sé ekki lengur áhyggju­efni.“

Samt vöruðu Eff­ron og með­stofnandi hans, Robert Pruzan, við því að breytta viðhorfið þýddi ekki að fyrir­tækið myndi gera sam­komu­lag í bráð, sér­stak­lega í ljósi þess að reksturinn gengur vel eins og staðan er.

„Þröskuldurinn verður hár,“ segir Pruzan.

Eff­ron sem er 62 ára, og Pruzan er 61 árs, stjórna fyrir­tækinu sam­eigin­lega. Vorið 2023 voru Eric Tokat, sér­fræðingur í líftækni­við­skiptum, og Tony Kim, sem hefur ráðlagt um mörg stærstu við­skipti fyrir­tækisins, skipaðir sem með­stjórn­endur.

Sú ákvörðun sýndi eftir­fylgniáætlanir fyrir­tækisins og lagði grunninn að breytingum fram undan.

Sam­keppnisaðilar Centervi­ew í fjár­festinga­banka­heiminum nutu góðs af markaðs­hækkun í fyrra, að hluta til vegna áherslu þeirra á ráðgjöf sem gerir þá að ein­földu fjár­festingar­tæki fyrir væntan­lega aukningu í við­skiptum.

Hluta­bréf Perella hækkuðu um meira en 90% árið 2024, hluta­bréf Evercor­e um meira en 60% og hluta­bréf PJT um um það bil 55%.