Fagkaup hefur náð samkomulagi um kaup á 70% hlut í DS Lausnum sem sérhæfir sig í sölu, útleigu og þjónustu byggingakrana, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Sam­keppnis­eftir­litið hefur nú sam­runa­til­kynningu fé­laganna til skoðunar.

DS Lausnir voru stofnaðar af Daníel Sigurðssyni árið 2002. Félagið velti 2.150 milljónum króna árið 2023, samanborið við 1.980 milljónir árið 2022. Hagnaður félagsins nam 491 milljón árið 2023 samanborið við 423 milljónir árið áður. Ársverk voru 37 árið 2023 en 23 árið áður.

Eignir DS Lausna voru bókfærðar á tæplega 2,9 milljarða í árslok 2023 og eigið fé var um 2,4 milljarðar króna. Félagið er með höfuðstöðvar að Breiðhellu 22 í Hafnarfirði.

Fagkaup, sem er í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, rekur verslunar- og þjónustufyrirtækin Johan Rönning, Sindra, Vatn & veitur, S. Guðjónsson, Áltak, K.H. Vinnuföt, Varma og Vélaverk, Ísleif, Hagblikk og Fossberg.

Fagkaup velti 25 milljörðum króna og var með 278 ársverk árið 2023. Eignir félagsins námu 14,4 milljörðum í árslok 2023 og eigið fé var um 5,6 milljarðar.

Fagkaup hefur keypt nokkur fyrirtæki á liðnum árum. Síðasta sumar greindi Viðskiptablaðið að félagið hefði náð samkomulagi um kaup á Jóhanni Ólafs­syni & Co. ehf. sem sér­hæfir sig í þjónustu og sölu á ljósa­perum og lýsingar­búnaði.

Umrædd viðskipti eru enn til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu en frestur eftirlitsins til að ljúka rannsókninni, sem var sett í fasa II, rennur út á fimmtudaginn, 13. febrúar.