Þrátt fyrir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi ákveðið í síðustu viku að fresta tollum á vörur frá Mexíkó og Kanada munu 25% tollar á ál- og stálvörur að óbreyttu taka gildi á miðvikudag.

Tollarnir ná meðal annars til Kanada og Mexíkó og byggir gildistaka þeirra á ákvæði laga um aukningu verslunar (e. Section 232 of the Trade Expansion Act), sem heimilar Bandaríkjaforseta m.a. að leggja tolla á vörur eða hráefni frá öðrum löndum ef talið er að hætta sé á að innflutningurinn ógni þjóðaröryggi. Trump greip til sambærilegra ráðstafana í fyrri forsetatíð sinni en Mexíkó og Kanada fengu þá undanþágu.

Samkvæmt frétt New York Times eru margir ál- og stálframleiðendur í Bandaríkjunum sagðir fagna þessum breytingum en innflutt stál, einna helst frá Kanada, var um 23% af markaðnum í fyrra og kemur langstærsti hluti hrááls frá löndum á borð við Kína.

Hagsmunaaðilar telja að tollarnir séu til þess fallnir að styrkja iðnaðinn í Bandaríkjunum og auka fjárfestingar í geiranum. Century Aluminium, stærsti framleiðandinn, hyggst til að mynda byggja nýtt álver, það fyrsta í 45 ár. Einhverjir hafa þó vakið athygli á því að fjöldi fyrirtækja er með verksmiðjur í Kanada og myndu því finna fyrir tollunum.