Jökulsárlón ferðaþjónusta ehf., sem rekur þjónustu um bátaferðir um Jökulsárlón á Breiðamerkursandi, hagnaðist um 497 milljónir króna á síðasta ári og velti 1,1 milljarði. Árið 2023 var metár í sögu félagsins, bæði þegar litið er til hagnaðar og veltu.

Mikil uppbygging er fram undan á Jökulsárlóni. Árið 2019 var samþykkt nýtt deiliskipulag sem gerir ráð fyrir uppbyggingu á allt að 5.130 fermetra aðstöðu á svæðinu. Gert er ráð fyrir að stærstur hluti aðstöðunnar verði uppbygging á aðstöðu fyrir veitingar, verslun, afþreyingu ásamt útleigurýmum fyrir rekstraraðila ferðaþjónustu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og fjármála-og efnahagsráðuneytið létu í samstarfi við Vatnajökulsþjóðgarð framkvæma greiningu á mögulegri aðkomu einkaaðila að uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum í þágu náttúruverndar og ferðamennsku við Jökulsárlón. Greiningin var unnin af Deloitte og eru í skýrslunni, sem birt var fyrr á árinu, settar fram fjórar sviðsmyndir þar sem gert er ráð fyrir mismikilli aðkomu ríkis og einkaaðila að verkefninu.

Endanleg útfærsla liggur þó ekki fyrir en Einar Björn Einarsson, framkvæmdastjóri og eigandi Jökulsárlóns ferðaþjónustu, fagnar fyrirhugaðri uppbyggingu, enda sé hún löngu tímabær.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.