Gunnar Baldvinsson framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins segir að brotthvarf lífeyrissjóðanna af húsnæðislánamarkaði – líkt og Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri hafi talað fyrir – hefði í för með sér verulega fækkun lánveitenda sem leiða myndi til fákeppni í stað samkeppni.
Þetta kemur fram í aðsendri grein eftir Gunnar í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar, þar sem Gunnar rekur þá fjölbreyttu valmöguleika sem lántakendum bjóðast í dag, ekki aðeins milli lánaforma heldur einnig lánveitenda.
Samkeppni á húsnæðislánamarkaði hafi stóraukist síðastliðinn áratug, að miklu leyti vegna breytinga á umgjörð markaðarins þar sem meðal annars hafi lántökugjöld í hlutfalli við lánsfjárhæð verið bönnuð og reglur um upplýsingagjöf til neytenda verið hertar.
„Lántakendur hafa raunverulegt val og geta bætt stöðu sína með því að gefa sér tíma og kynna sér kosti í boði til að taka upplýsta ákvörðun. Það skýtur því óneitanlega skökku við þegar Seðlabankastjóri talar fyrir því að lífeyrissjóðir hætti að veita húsnæðislán,“ segir Gunnar í niðurlagi pistilsins og klykkir út með áðurnefndri spá um fákeppni ef sú yrði raunin.
Gunnar heggur þar í sama knérunn og kollegi hans Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri Birtu lífeyrissjóðs, sem sagði málflutning seðlabankastjóra í þessum efnum „ákveðin vonbrigði“ í samtali við Innherja í vor.