Fjármála- og efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra hafa ákveðið að breyta fyrirkomulagi við öflun húsnæðis fyrir hjúkrunarheimili. Nú er að áformað að ríkið sjái alfarið um öflun húsnæðis undir rekstur hjúkrunarheimila í gegnum leigusamninga við fasteignafélög og aðra sérhæfða aðila á grundvelli útboða. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.
Gildandi fyrirkomulag miðar við að ríki og sveitarfélög standi saman að byggingu húsnæðis undir hjúkrunarheimili. Ríkið hefur að jafnaði greitt 85% stofnkostnaðar á móti 15% framlagi sveitarfélags að lágmarki og leggur sveitarfélagið jafnframt til lóð og ber kostnað af nauðsynlegri gatnagerð.
„Í stað fjármögnunar húsnæðiskostnaðar hjúkrunarheimila með stofnframlögum og lágmarks húsnæðisgjaldi verði staðið undir húsnæðiskostnaði með nýju húsnæðisgjaldi sem miðist við eðlilega leigu fyrir húsnæði af þessum toga,“ segir í einni af tillögum starfshóps sem skipaður var fulltrúum fjármála- og heilbrigðisráðuneytisins.
Starfshópurinn lagði til að sérstakir leigusamningar verði gerðir um afnot og viðhald húsnæðis hjúkrunarheimila á grundvelli útboða sem leiði til hagstæðustu útkomu fyrir ríkið, að teknu tilliti til gæða og kostnaðar.
Þá verði bygging, rekstur og viðhald húsnæðisins á hendi sérhæfðra aðila og að fullu aðskilið frá rekstri þjónustunnar.
Töluverðar tafir við byggingu nýrra hjúkrunarheimila
Undanfarin ár hafa orðið töluverðar tafir á framkvæmdum við byggingu nýrra hjúkrunarheimila, að því er segir í tilkynningunni. Þá er jafnframt ljóst að þörf á verulegri fjölgun hjúkrunarrýma á næstu árum vegna öldrun þjóðarinnar og fjölgun landsmanna.
Framangreind ákvörðun um að fela ríkinu alfarið að sjá um öflun húsnæðis byggir á tillögum starfshóps þessa efnis voru kynntar fyrir ríkisstjórn á dögunum. Markmiðið er sagt vera að auka hagkvæmni, sérhæfingu og skilvirkni á þessu sviði og stuðla að því að framboð hjúkrunarrýma haldist í hendur við vaxandi þörf á komandi árum.
„Með nýju fyrirkomulagi setjum við okkur þau markmið að auka hagkvæmni og framkvæmdahraða vegna fjárfestinga í hjúkrunarheimilum og að tryggja fjármuni til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta þegar þeirra er þörf, en hvortveggja er stórt framfaraskref í þessum brýna málaflokki“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra.
„Þetta eru vel unnar tillögur sem munu styrkja það mikilvæga verkefni að mæta skjótar vaxandi þörf fyrir fjölgun hjúkrunarrýma, bæta þjónustu við aldraða og stuðla að því markmiði að rétt þjónusta sé veitt á réttum stað og réttum tíma“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.