Þýski hug­búnaðar­risinn SAP fór í morgun fram úr danska lyfja­fyrir­tækinu Novo Nor­disk sem verðmætasta fyrir­tæki Evrópu miðað við markaðsvirði.

Hluta­bréf SAP hækkuðu um 1,3% við opnun markaða í morgun og fór markaðsvirði fyrir­tækisins í 313 milljarða evra. Það er rétt yfir markaðsvirði danska lyfja­fyrir­tækisins, en hluta­bréf þess lækkuðu um 2,5% í fyrstu við­skiptum.

Hluta­bréf SAP hafa hækkað um meira en 40% síðastliðið ár þar sem fjár­festar hafa tekið vel í stefnu­breytingu fyrir­tækisins sem felst í því að ein­blína meira á skýjaþjónustu.

Fyrir­tækið á stóran þátt í góðu gengi DAX-vísitölunnar Frankfurt sem hefur hækkað um 26% á síðastliðnum tólf mánuðum sem er um­tals­vert meiri hækkun en aðrar sam­bæri­legar vísitölur.

Samkvæmt Financial Times vegur SAP nú meira í þýsku vísitölunni en bíla­iðnaðurinn saman­lagt, þar á meðal Volkswa­gen og Mercedes-Benz.

Í október síðastliðnum leysti SAP hollenska fram­leiðandann ASML af hólmi sem stærsta tækni­fyrir­tæki Evrópu.

Upp­gangur SAP kemur á sama tíma og for­stjóri félagsins, Christian Klein, leiðir stefnu­breytingu innan félagsins þar sem tekjumódelið er að breytast úr sölu á hug­búnaðar­leyfum yfir í áskriftarþjónustu í skýinu.

Christian Klein, forstjóri SAP er 44 ára gamall.
© epa (epa)

Vonir standa til að breytingin skili arðbærari og fyrir­sjáan­legri við­skipta­módeli sem byggist á endur­teknum tekjum.

Tals­maður SAP segir að það að verða verðmætasta fyrir­tæki Evrópu undir­strikaði mikilvægt hlut­verk tækninnar í að halda Evrópu sam­keppnis­hæfri á heims­vísu.

Á sama tíma hafa hluta­bréf Novo Nor­disk lækkað um meira en 40% síðastliðið ár þar sem fyrir­tækið hefur glímt við nokkur áföll í þróun nýs lyfs við of­fitu, Ca­griSema.

Fyrr í þessum mánuði birti Novo Nor­disk niður­stöður úr rannsókn á Ca­griSema sem urðu fjár­festum von­brigði og lækkuðu hluta­bréfin um meira en 8% þann 10. mars.

Niður­stöður rannsókna á Ca­griSema þurrkuðu næstum 100 milljarða Bandaríkja­dala af markaðsvirði fyrir­tækisins í desember í fyrra.