Þýski hugbúnaðarrisinn SAP fór í morgun fram úr danska lyfjafyrirtækinu Novo Nordisk sem verðmætasta fyrirtæki Evrópu miðað við markaðsvirði.
Hlutabréf SAP hækkuðu um 1,3% við opnun markaða í morgun og fór markaðsvirði fyrirtækisins í 313 milljarða evra. Það er rétt yfir markaðsvirði danska lyfjafyrirtækisins, en hlutabréf þess lækkuðu um 2,5% í fyrstu viðskiptum.
Hlutabréf SAP hafa hækkað um meira en 40% síðastliðið ár þar sem fjárfestar hafa tekið vel í stefnubreytingu fyrirtækisins sem felst í því að einblína meira á skýjaþjónustu.
Fyrirtækið á stóran þátt í góðu gengi DAX-vísitölunnar Frankfurt sem hefur hækkað um 26% á síðastliðnum tólf mánuðum sem er umtalsvert meiri hækkun en aðrar sambærilegar vísitölur.
Samkvæmt Financial Times vegur SAP nú meira í þýsku vísitölunni en bílaiðnaðurinn samanlagt, þar á meðal Volkswagen og Mercedes-Benz.
Í október síðastliðnum leysti SAP hollenska framleiðandann ASML af hólmi sem stærsta tæknifyrirtæki Evrópu.
Uppgangur SAP kemur á sama tíma og forstjóri félagsins, Christian Klein, leiðir stefnubreytingu innan félagsins þar sem tekjumódelið er að breytast úr sölu á hugbúnaðarleyfum yfir í áskriftarþjónustu í skýinu.

Vonir standa til að breytingin skili arðbærari og fyrirsjáanlegri viðskiptamódeli sem byggist á endurteknum tekjum.
Talsmaður SAP segir að það að verða verðmætasta fyrirtæki Evrópu undirstrikaði mikilvægt hlutverk tækninnar í að halda Evrópu samkeppnishæfri á heimsvísu.
Á sama tíma hafa hlutabréf Novo Nordisk lækkað um meira en 40% síðastliðið ár þar sem fyrirtækið hefur glímt við nokkur áföll í þróun nýs lyfs við offitu, CagriSema.
Fyrr í þessum mánuði birti Novo Nordisk niðurstöður úr rannsókn á CagriSema sem urðu fjárfestum vonbrigði og lækkuðu hlutabréfin um meira en 8% þann 10. mars.
Niðurstöður rannsókna á CagriSema þurrkuðu næstum 100 milljarða Bandaríkjadala af markaðsvirði fyrirtækisins í desember í fyrra.