Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu, Samtök ferðaþjónustunnar og Viðskiptaráðs Íslands fara hörðum orðum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra til markaðssetningarlaga.
Samtökin saka Lilju um „vísvitandi“ gullhúðun þar sem gengið er mun lengra í frumvarpinu en EES-reglur kveða á um.
Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu en í því er að finna til að mynda heimildir til að dæma einstaklinga í fangelsi fyrir það eitt að nota ekki íslensku í auglýsingum, hvort sem brotið er framið af ásetningi eða einföldu gáleysi.
Bann við að raska „fjárhagslegri hegðun“
Samtökin segja að ákvæði frumvarpsdraganna séu óskýr og ekki í fullu samræmi við íslenska lagasetningarhefð.
„Það verður því að miklu leyti verkefni ákvörðunar- og úrskurðaraðila að slá inntaki ákvæðanna föstu m.t.t. atvika hverju sinni. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að atvinnurekendur muni þurfa að kosta töluverðu til í þeim tilvikum þegar athugasemdir hafa verið gerðar við starfsemi þeirra á grundvelli ákvæða frumvarpsins. Mun það ekki síst eiga við þegar lagt verður mat á hvort viðskiptahættir raski eða séu líklegir til að raska „fjárhagslegri hegðun hins almenna neytanda“ eða hópi neytenda sem „er sérstaklega berskjaldaður fyrir viðskiptaháttunum eða afurðinni sem á í hlut,“ segir í umsögn Samtakanna.
„Til að mynda má almennt gera ráð fyrir að það æsist leikar hjá hópi neytenda þegar, að afloknum hádegisverði, er komið auga á ljósum prýdda kaffivél veitingastaðar, svo af hlýst fjárhagsleg röskun hjá þeim hópi. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að brot gegn ákvæðum frumvarpsins munu varða ýmsum stjórnvaldsúrræðum, á borð við bönn og stjórnvaldssektir auk refsinga í formi sekta eða allt að sex mánaða fangelsi burtséð frá því hvort þau eru framin af ásetningi eða einföldu gáleysi,” segir enn fremur í umsögninni.
„Dyrnar að fangelsinu eru opnar“
Í frumvarpinu er að finna meginregluna um notkun íslenska tungumálsins í auglýsingum, skilmálum og ábyrgðaryfirlýsingum.
Segja Samtökin að af umfjöllun um regluna í frumvarpinu verði ráðið að í henni felist í raun bann við birtingu auglýsinga á almannafæri á öðrum tungumálum en íslensku og jafnframt bann við því að allar kynningar atvinnurekenda á afurðum verði á öðrum tungumálum en íslensku, þ.m.t. auglýsingar á skiltum í umhverfinu, matseðlar veitingastaða og upplýsingabæklingar verslana.
„Af greinargerð frumvarpsins verður ráðið að þarna sé á ferðinni íslenskt ákvæði sem ekki þurfi að vera svo bratt samkvæmt EES-rétti. Frumvarpshöfundur kveðst hafa litið til sambærilegra krafna sem gerðar eru til auglýsinga, m.a. í frönskum og eistneskum lögum. Samtökin telja langsótt að leita í það lagaumhverfi og eðlilegra væri að horfa til þeirra landa sem við almennt berum okkur saman við. Þó hafa megi skilning á því að talin sé ástæða til að varðveita íslenskt tungumál verður að hafa í huga að í einhverjum tilvikum gæti það leitt til lakari upplýsingagjafar en ella,“ segir í umsögninni.
Samtökin nefna raftækjaverslanir sem dæmi, sem stundum hafa á boðstólum kynningarefni fyrir raftæki sem erlendur framleiðandi hefur útbúið þar sem gerð er ítarleg grein fyrir tækni- og notkunareiginleikum tækisins.
„Slík verslun mun eftir gildistöku laganna standa frammi fyrir því að velja á milli tveggja kosta, annars vegar að leggja kynningarefnið ekki fram eða láta þýða kynningarefnið með tilheyrandi nýsköpun íðorða og væntanlega með ærnum tilkostnaði. Samkvæmt 6. tölul. 2. mgr. 37. gr. frumvarpsins mun það jafnvel geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að brjóta gegn meginreglunni um íslensku hvort sem brotið er framið af ásetningi eða einföldu gáleysi. Örlög eiganda raftækjaverslunarinnar, í dæminu hér að framan, eða atvinnurekanda sem verður það á að hengja upp plakat í búð sinni sem ekki er á íslensku geta því orðið einföld. Dyrnar að fangelsinu eru opnar og það eina sem hann þarf að gera er að hökta yfir þröskuldinn.“
Neytendastofa, nú með tálbeituaðferðum
Þá er einnig lagt upp með í frumvarpinu að gera Neytendastofu að sjálfstæðu stjórnvaldi, að hluta til óháða boðvaldi ráðherra.
Neytendastofu verður gefið víðtækt rannsóknarvald, fengin sjálfstæð heimild til leitar og haldlagningar ásamt því að vera heimilað að beita eins konar tálbeituaðferðum, sem Samtökin segja að verði á kostnað atvinnurekenda.
Þá fær Neytendastofa einnig víðtækar heimildir til upplýsingaöflunar og jafnframt ákvörðunar viðurlaga að upplýsingunum fengnum.
„Í sem allra stystu máli virðist ætlunin að búa til Samkeppniseftirlitið II. Samtökin vilja nýta tækifærið og hvetja ráðuneytið frekar til þess að ráðast í sameiningu stofnana á sínu sviði. Samtökin eru meðvituð um að verið er að rýna í stofnanaumhverfið um þessar mundir og binda vonir við að sú vinna muni verða til þess að loksins verði af slíkum hugmyndum sem voru fyrst viðraðar fyrir rúmum átta árum síðan,“ segir í umsögn Samtakanna.