Sam­tök at­vinnu­lífsins, Sam­tök iðnaðarins, Sam­tök verslunar og þjónustu, Sam­tök ferða­þjónustunnar og Við­skipta­ráðs Ís­lands fara hörðum orðum um frum­varp Lilju Al­freðs­dóttur menningar- og við­skipta­ráð­herra til markaðs­setningar­laga.

Sam­tökin saka Lilju um „vís­vitandi“ gull­húðun þar sem gengið er mun lengra í frum­varpinu en EES-reglur kveða á um.

Frum­varpið felur í sér heildar­endur­skoðun á lögum um eftir­lit með við­skipta­háttum og markaðs­setningu en í því er að finna til að mynda heimildir til að dæma ein­stak­linga í fangelsi fyrir það eitt að nota ekki ís­lensku í aug­lýsingum, hvort sem brotið er framið af á­setningi eða ein­földu gá­leysi.

Bann við að raska „fjár­hags­legri hegðun“

Sam­tökin segja að á­kvæði frum­varps­draganna séu ó­skýr og ekki í fullu sam­ræmi við ís­lenska laga­setningar­hefð.

„Það verður því að miklu leyti verk­efni á­kvörðunar- og úr­skurðar­aðila að slá inn­taki á­kvæðanna föstu m.t.t. at­vika hverju sinni. Fyrir vikið má gera ráð fyrir að at­vinnu­rek­endur muni þurfa að kosta tölu­verðu til í þeim til­vikum þegar at­huga­semdir hafa verið gerðar við starf­semi þeirra á grund­velli á­kvæða frum­varpsins. Mun það ekki síst eiga við þegar lagt verður mat á hvort við­skipta­hættir raski eða séu lík­legir til að raska „fjár­hags­legri hegðun hins al­menna neytanda“ eða hópi neyt­enda sem „er sér­stak­lega ber­skjaldaður fyrir við­skipta­háttunum eða af­urðinni sem á í hlut,“ segir í um­sögn Sam­takanna.

„Til að mynda má al­mennt gera ráð fyrir að það æsist leikar hjá hópi neyt­enda þegar, að af­loknum há­degis­verði, er komið auga á ljósum prýdda kaffi­vél veitinga­staðar, svo af hlýst fjár­hags­leg röskun hjá þeim hópi. Í þessu sam­hengi verður að hafa í huga að brot gegn á­kvæðum frum­varpsins munu varða ýmsum stjórn­valds­úr­ræðum, á borð við bönn og stjórn­valds­sektir auk refsinga í formi sekta eða allt að sex mánaða fangelsi burt­séð frá því hvort þau eru framin af á­setningi eða ein­földu gá­leysi,” segir enn fremur í um­sögninni.

„Dyrnar að fangelsinu eru opnar“

Í frum­varpinu er að finna megin­regluna um notkun ís­lenska tungu­málsins í aug­lýsingum, skil­málum og á­byrgðar­yfir­lýsingum.

Segja Sam­tökin að af um­fjöllun um regluna í frum­varpinu verði ráðið að í henni felist í raun bann við birtingu aug­lýsinga á al­manna­færi á öðrum tungu­málum en ís­lensku og jafn­framt bann við því að allar kynningar at­vinnu­rek­enda á af­urðum verði á öðrum tungu­málum en ís­lensku, þ.m.t. aug­lýsingar á skiltum í um­hverfinu, mat­seðlar veitinga­staða og upp­lýsinga­bæklingar verslana.

„Af greinar­gerð frum­varpsins verður ráðið að þarna sé á ferðinni ís­lenskt á­kvæði sem ekki þurfi að vera svo bratt sam­kvæmt EES-rétti. Frum­varps­höfundur kveðst hafa litið til sam­bæri­legra krafna sem gerðar eru til aug­lýsinga, m.a. í frönskum og eist­neskum lögum. Sam­tökin telja lang­sótt að leita í það laga­um­hverfi og eðli­legra væri að horfa til þeirra landa sem við al­mennt berum okkur saman við. Þó hafa megi skilning á því að talin sé á­stæða til að varð­veita ís­lenskt tungu­mál verður að hafa í huga að í ein­hverjum til­vikum gæti það leitt til lakari upp­lýsinga­gjafar en ella,“ segir í um­sögninni.

Sam­tökin nefna raf­tækja­verslanir sem dæmi, sem stundum hafa á boð­stólum kynningar­efni fyrir raf­tæki sem er­lendur fram­leiðandi hefur út­búið þar sem gerð er ítar­leg grein fyrir tækni- og notkunar­eigin­leikum tækisins.

„Slík verslun mun eftir gildis­töku laganna standa frammi fyrir því að velja á milli tveggja kosta, annars vegar að leggja kynningar­efnið ekki fram eða láta þýða kynningar­efnið með til­heyrandi ný­sköpun íð­orða og væntan­lega með ærnum til­kostnaði. Sam­kvæmt 6. tölul. 2. mgr. 37. gr. frum­varpsins mun það jafn­vel geta varðað sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum að brjóta gegn megin­reglunni um ís­lensku hvort sem brotið er framið af á­setningi eða ein­földu gá­leysi. Ör­lög eig­anda raf­tækja­verslunarinnar, í dæminu hér að framan, eða at­vinnu­rekanda sem verður það á að hengja upp plakat í búð sinni sem ekki er á ís­lensku geta því orðið ein­föld. Dyrnar að fangelsinu eru opnar og það eina sem hann þarf að gera er að hökta yfir þröskuldinn.“

Neytendastofa, nú með tálbeituaðferðum

Þá er einnig lagt upp með í frum­varpinu að gera Neyt­enda­stofu að sjálf­stæðu stjórn­valdi, að hluta til ó­háða boð­valdi ráð­herra.

Neyt­enda­stofu verður gefið víð­tækt rann­sóknar­vald, fengin sjálf­stæð heimild til leitar og hald­lagningar ásamt því að vera heimilað að beita eins konar tál­beitu­að­ferðum, sem Samtökin segja að verði á kostnað at­vinnu­rek­enda.

Þá fær Neytendastofa einnig víð­tækar heimildir til upp­lýsinga­öflunar og jafn­framt á­kvörðunar viður­laga að upp­lýsingunum fengnum.

„Í sem allra stystu máli virðist ætlunin að búa til Sam­keppnis­eftir­litið II. Sam­tökin vilja nýta tæki­færið og hvetja ráðu­neytið frekar til þess að ráðast í sam­einingu stofnana á sínu sviði. Sam­tökin eru með­vituð um að verið er að rýna í stofnana­um­hverfið um þessar mundir og binda vonir við að sú vinna muni verða til þess að loksins verði af slíkum hug­myndum sem voru fyrst viðraðar fyrir rúmum átta árum síðan,“ segir í um­sögn Sam­takanna.