„Þetta hefur farið mjög vel af stað. Það er mikil aukning bæði í notendafjölda og magni vara sem fyrirtækin eru að setja inn,“ segir Hlynur Rafn Guðmundsson, einn þriggja stofnenda smáforritsins Humble sem fór í loftið fyrir þremur vikum.

Auk Hlyns eru Andri Geir Arnarson og Steinn Arnar Kjartansson stofnendur, en þeir stunduðu nám saman í Danmörku. Þeir þrír eru æskuvinir frá Seltjarnarnesi, en þar að auki starfar Helgi Hallgrímsson sem forritari hjá félaginu.

Smáforritið Humble er markaðstorg fyrir veitingastaði, smávöruverslanir, mötuneyti, bakarí og heildsölur til að auglýsa vörur sem eru að nálgast síðasta neysludag og selja með afslætti. Nú þegar hafa Tokyo Sushi, Brauð & Co, Brikk, Te & Kaffi og BakaBaka sett vörur inn í markaðstorgið og þannig minnkað matarsóun. Fyrirtækið Humble var stofnað í nóvember 2020, en þeir félagar fengu hugmyndina að verkefninu sama ár.

„Hugmyndin fæddist yfir bjórglasi sumarið 2020. Þá vorum við að velta fyrir okkur hvað smásalar á Íslandi væru að gera til að sporna gegn matarsóun samanborið við kollega þeirra í Danmörku, þar sem sambærilegar lausnir eru til. Í kjölfarið fórum við af stað með verkefnið, sem mótaðist samhliða því að við sóttum um styrki,“ segir Hlynur, en þeir hafa meðal annars fengið styrki frá Loftslagssjóði og Tækniþróunarsjóði.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um Humble sem birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.