Erfiðir tímar eru að baki hjá skemmtistöðum landsins en samkomutakmarkanir vegna Covid–19 faraldursins reistu skemmtistöðum landsins verulegar skorður.

Jónas Óli Jónasson sem stefnir að því að opna skemmtistaðinn Hax í þessum mánuði segir faraldurinn hafa breytt hegðun fólks á skemmtanalífinu. Fólk sé fari fyrr í bæinn og álagið sé í auknum mæli að dreifast á virku dagana.

Jafnframt því sé sú kynslóð sem steig sín fyrstu skref í skemmtanalífinu meðan á faraldrinum stóð að upplifa frábrugðna skemmtanamenningu en tíðkaðist hér áður fyrr, þar sem fólk hafi farið í bæinn eftir miðnætti og staldrað til morguns.

„Mér finnst jákvæð þróun að fólk sé farið að mæta fyrr á staðina. Það er að mörgu leyti einkennandi fyrir Ísland hvað fólk fer seint niður í bæ og er að skemmta sér langt fram á nótt. Það er líka á ábyrgð staðanna að skapa góðar aðstæður fyrir þá sem vilja mæta fyrr,“ segir Jónas.

Nánar er rætt við Jónas Óla um nýja skemmtistaðinn í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.